Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skiptar skoðanir um álver í Helguvík
Miðvikudagur 25. maí 2005 kl. 10:06

Skiptar skoðanir um álver í Helguvík

"Við teljum að það sé komið nóg af álversuppbyggingu hér á landi og við munum leggjast gegn þessari framkvæmd innan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur," segir Tryggvi Friðjónsson, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar. Fulltrúar Norðuráls, Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja hafa undirritað samkomulag um könnun á möguleikum á rekstri álvers í Helguvík sem áætlað er að gæti tekið til starfa á árunum 2010 til 2015. Hitaveita Suðurnesja hefur átt samstarf við Orkuveituna um stækkun álversins á Grundartanga og hefur litið hýru auga til frekara samstarfs við OR vegna álvers í Helguvík, að því er kemur fram í Fréttablaðinu.

Tryggvi segir skýran mun á þeirri ákvörðun Vinstri grænna að samþykkja stækkun álversins á Grundartanga og þeirri ákvörðun að leggjast gegn framkvæmdum í Helguvík. "Það er stigsmunur á því að stækka álver sem fyrir er og að leggja af stað í nýjan leiðangur auk þess sem aðrar forsendur voru til staðar við stækkunina á Grundartanga sem tengjast meðal annars öðrum virkjanaframkvæmdum í landinu."

Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitunnar, telur málið anga af vandræðgangi R-listans. "Þetta mál hefur verið lítið rætt í stjórninni en þetta er mikið vandræðamál fyrir meirihlutann og Vinstri grænar ber jafn mikla ábyrgð og við sjálfstæðismenn á uppbyggingunni á Grundartanga. Nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, sem staðið hefur fyrir stóriðjustefnu í Reykjavík, er allt í einu farinn að tala gegn henni og menn spyrja sig hvort hún sé búin að taka u-beygju í þessu máli eins og mörgum öðrum," segir Guðlaugur.

Ekki náðist í fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar, Sigrúnu Elsu Smáradóttur, í gær. Næsti stjórnarfundur Orkuveitunnar er 1. júní.

Afstaða VG skiptir engu máli

"Við höfum meirihluta í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir ákvörðun um raforkusölu til stóriðju og ef af verður, til álvers í Helguvík. Mér er hins vegar kunn afstaða VG til stóriðju og vitum að þeir vilja heldur staldra við. Ástæða þess að við tókum ekki þátt í því að skrifa undir viljayfirlýsingu um álver í Helguvík ásamt með Hitaveitu Suðurnesja, Reykjanesbæ og Norðuráli var sú að fleiri fyrirtæki hafa sett sig í samband við okkur og óskað eftir samstarfi og við erum að skoða málið í heild sinni," segir Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar.

Hann segir ljóst að ef fulltrúi VG í stjórninni muni ekki greiða atkvæði með slíkri tillögu sé engu að síður meirihluti í stjórn Orkuveitunnar og ekkert því til fyrirstöðu að Orkuveitan komi að raforkusölu og þátttöku í uppbyggingu stóriðju í landinu.

"Ég hef ekki trú á öðru en að Orkuveitan muni koma að framkvæmdum af þessu tagi. Ég geri ráð fyrir því að sjálfstæðismenn muni vilja vera með í meirihluta í stjórninni um mál af þessu tagi því það þætti sérstaklega nýmælisvert ef þeir leggðust gegn stóriðju og ekki síst þar sem um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir Reykjanesbæ," sagði Alfreð. Stjórnarformaður Orkuveitunnar hefur tvöfalt atkvæðavægi í sex manna stjórn fyrirtækisins.Næsti stjórnarfundur í Orkuveitunni er 1. júní en þá er gert ráð fyrir að málefni álvers í Helguvík verði á dagskrá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024