Skiptar skoðanir um 3ja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar
Þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar kom til umræðu á bæjarstjórnarfundi á þriðjudaginn og eins og vænta mátti voru skiptar skoðanir um hana. A-listinn lagði fram bókun þar sem segir að spurning hljóti að vakna um heimildir kjörinna fulltrúa til þess að skuldbinda sveitarsjóð áratugi fram í tímann svo nemur milljörðum króna. Það geti vart talist góð fjármálaspeki að gera bara út á kaupleigu, eins og segir í bókuninni.
Í bókun sem meirihluti D-listans lagði fram segir að val A-listans að telja skynsamlegra að hækka skuldsetningu bæjarsjóðs til að lækka útgjöld í rekstrarreikningi hafi engin áhrif á raunverulega stöðu bæjarins nema til hins verra.
Áætlunin var samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans en minnihlutinn sat hjá.
Annars eru bókanirnar svohljóðandi.
Bókun A-lista:
Húsaleiga yfir milljarð -Reykjanesbær í kaupleigu
Þriggja ára fjárhagsætlun Reykjanesbæjar er nú lögð fram til afgreiðslu bæjarstjórnar. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir verulegri tekjuaukningu sveitarfélagsins þrátt fyrir þá niðursveiflu sem nú er hafin í íslensku samfélagi og mun koma niður á sveitarsjóðum ekki síður en einstaklingum þessa lands. Það er því óráðlegt að okkar mati að gera ráð fyrir að fyrirhuguð bygging álvers í Helguvík muni hafa slík áhrif hér á svæðinu að Suðurnesjamenn muni ekki upplifa niðursveifluna heldur lifa í eigin heimi. Gott ef satt væri. Reykjanesbær mun ekki einvörðungu njóta tekna af álveri, heldur mun þurfa að leggja út í kostnaðarsamar vaxtaberandi fjárfestingar vegna hafnarmannvirkja sem nauðsynleg eru.
Skv. áætlun er gert ráð fyrir að tekjur sveitarsjóðs hækki um tæp 30% á tímabilinu, úr 5,7 milljörðum í 7,3 en að gjöld hækki einvörðungu um tæp 19%.
Það vekur athygli að útgjaldaaukinn skuli að stórum hluta vera tilkominn vegna fasteigna sem sveitarfélagið mun taka á leigu hjá Fasteign hf. á tímabilinu og kostnaðar vegna reksturs þeirra.
Það bólar hvergi á vilja sjálfstæðismanna til þess að auka nærþjónustu við íbúa í sveitarfélaginu. Ekki stafur um stuðning við félagslega íbúðakerfið, engin aukin framlög vegna íþrótta- og tómstundaþátttöku barna og ungmenna, ekki að lagðir séu auknir fjármunir í að auðvelda eldri íbúum áframhaldandi búsetu í eigin húsnæði svo að fátt eitt sé nefnt.
Þegar bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað á árinu 2003 að setja fasteignir í eigu sveitarfélagsins inn í Fasteign hf. og endurleigja, var húsleiga vegna þess, rétt rúmar 300 milljónir. Verði þessi fjárhagsáætlun að veruleika mun húsaleiga sem sveitarfélagið greiðir verða komin yfir einn milljarð og Reykjanesbær þá væntanlega íslandsmethafi í greiðslu húsaleigu. Þetta hlýtur auðvitað að vekja upp spurningar um heimildir kjörinna fulltrúa til þess að skuldbinda sveitarsjóð áratugi fram í tímann svo nemur milljörðum króna. Það getur vart talist góð fjármálaspeki að gera bara út á kaupleigu. Slíkt getur bara endað á einn veg.
Guðbrandur Einarsson, Eysteinn Jónsson, Sveindís Valdimarsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson.
Bókun D-lista:
Höfnum skuldsetningarleið A-listans!
Þriggja ára áætlun Reykjanesbæjar gefur heildarmynd af þróun tekna og gjalda auk samsetningar efnahagsreiknings og fjárstreymi. Miðað við áætlaða tekjuþróun, áætluð verkefni, aukna þjónustu við bæjarbúa, unga sem aldna, byggingar og tilheyrandi rekstrarkostnað af þeim er gert ráð fyrir að reksturinn styrkist, eiginfjárhlutfall haldi áfram að aukast og skuldir á íbúa haldi áfram að lækka. Þetta er aðalatriðið.
Það er ekki um það deilt að með tilkomu leigusamninga um flestar fasteignir í bæjarfélaginu, hækkar rekstrarkostnaður bæjarsjóðs umtalsvert . Gert er ráð fyrir því að fullu í þriggja ára áætluninni. Fyrir vikið vega lántökur og skuldsetning vegna byggingarframkvæmda mun minna í efnahagsreikningi. Útgjöldin eru færð á rekstur. Bæjarfélagið stendur vel undir þessum kostnaði.
Val A-listans að telja skynsamlegra að hækka skuldsetningu bæjarsjóðs til að lækka útgjöld í rekstrarreikningi hefur engin áhrif á raunverulega stöðu bæjarins nema til hins verra miðað við að vextir og gengismál af skuldsetningu skapa mun meiri óvissu í rekstur sveitarfélagsins.
Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Björk Guðjónsdóttir, Sigríður J. Jóhannesdóttir og Þorsteinn Erlingsson.