Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skipin sigli fjær landi
Laugardagur 28. júlí 2007 kl. 12:12

Skipin sigli fjær landi

Siglingaleiðir með suðvesturströnd landsins verða afmarkaðar lengra frá landi samkvæmt samþykkt undirnefndar Alþjóðasiglingamálastofnunar frá í gær.
Strand Wilson Muuga síðla árs í fyrra vakti upp umræðu um öryggi siglingaleiða og hvort rétt væri að afmarka þær lengra frá landi.

Um tvær siglingaleiðir verður að ræða, innri leið sem ætluð er minni flutningaskipum allt að 5 þúsund brúttólestum og liggja mun innan Eldeyjar um 2-3 sjómílur frá landi. Ytri leiðin er ætluð stærri skipum sem og þeim sem flytja hættulegri varning, s.s. olíufarma. Hún mun liggja 15 sjómílur utan við Eldey.
Auk þessara leiða eru skilgreind þrjú svæði sem skipstjórar skulu forðast, m.a. grynningar í Faxaflóa og umhverfis Fuglasker og Eldey. Á þessum svæðum er að finna eitt stærsta súluvarp í heimi og stærstu hrygningarstöðvar þorksins. Alvarleg olíumengun myndi því ugglaust hafa mikil áhrif.

Enn sem komið eru þetta tillögur undirnefndarinnar. Þær eiga eftir að koma inn á borð yfirnefndar og ef hún staðfestir þær nú í haust tekur við kynningarferli og skráning leiðanna. Það yrði þá um mitt næsta ár sem þær tækju gildi.


Mynd: Við strendur Suðurnesja er algengt að sjá stór flutningaskip sigla hjá nærri landi. Þessi mynd er tekin við Garðskaga. Strand Wilson Muuga vakti upp spurningar um öryggi.

VF-mynd: elg

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024