Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skiluðu skömminni beint á framrúðuna
Þriðjudagur 19. september 2017 kl. 11:21

Skiluðu skömminni beint á framrúðuna

— ókeypis tjaldstæði með hreinlætisaðstöðu skammt frá

Ferðamaður sem gisti við annan mann í bifreið við Hafnargötu í Vogum í nótt lét það verða sitt fyrsta verk í morgunsárið að fara á bakvið gám hjá fyrirtæki við götuna og ganga örna sinna. 
 
Starfsmenn í fyrirtæki við götuna urðu vitni að athæfinu og létu ekki bjóða sér upp á óþverran afskiptalaust.
 
Eftir að ferðamaðurinn hafði gert stykkin sín gekk hann rakleiðis aftur að bílnum sem lagt var í götunni og hélt áfram að sofa.
 
Bifreiðin er merkt ferðaþjónustufyrirtæki og leigð út sem bifreið með svefnplássi fyrir tvo. Í bílnum var par á þrítugsaldri og þegar það vaknaði aftur af værum blundi í morgun var augljóst að það var ekki sátt, enda var það sem skilið var eftir við gáminn nú komið á framrúðuna.
 
„Hann þurrkaði þetta af framrúðunni og henti hér út í kant og ók á brott,“ sagði Einar Birgisson, sem varð vitni að atburðum morgunsins. Eftirlitsmyndavélar á svæðinu staðfesta það sem átti sér stað snemma í morgun.
 
„Það sorglegasta af öllu er að nokkur hundruð metra ofar í götunni eru ókeypis tjaldstæði með hreinlætisaðstöðu sem fólkið hefði getað notað. Þá hefði viðkomandi einnig getað bankað uppá hjá okkur og fengið að fara á salernið,“ sagði Einar í samtali við Víkurfréttir. 
 
Samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir Sveitarfélagið Voga er bannað að gista í bíl sem þessum utan tjaldstæðis í sveitarfélaginu.
 
Myndirnar voru teknar á vettvangi í morgun en þær birtust upphaflega á fésbókarsíðu sem íbúar í Vogum halda úti.

 
Þessi bíll er leigður út með gistiplássi fyrir tvo. Hann stóð við Hafnargötu í Vogum í nótt.
 

Ferðamaðurinn fór á bakvið þennan gám til að ganga örna sinna...
 

... en vaknaði svo með skömmina á framrúðunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024