Skilorð fyrir líkamsárás
Karlmaður var í gær dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir húsbrot og líkamsárás sem átti sér stað í Sandgerði vorið 2006. Hann var sakfelldur fyrir að hafa ráðist á konu í heimahúsi, hent henni í gegnum hurð á baðhergi þannig að hún lenti utan í klósettinu og hlaut af mar.
Forsaga málsins er sú, að sögn ákæranda, að maðurinn hafði hringt í hana, drukkinn, og sagst viljað eiga við hana náin kynni. Hún hafi neitað og borið því við að hún væri á heimili sínu í Reykjavík. Þekktust þau lítillega fyrir, en þau eru bæði Pólverjar.
Hann sætti sig greinilega ekki við þær málalyktir og fór því, ásamt félaga sínum, sem átti þá í sambandi við kæranda, að heimili bróður hennar þar sem hún var stödd og hellti sér yfir hana með skömmum og fúkyrðum. Reiddist kærandi þá og löðrungaði ákærða sem brást ókvæða við, greip í konuna og fleygði henni í lokaða baðherbergishurð sem brotnaði upp. Hún lenti svo með síðuna í klósettinu og segir í ákærunni að hún hafi hlotið af marbletti á handlegg og vinstra megin á baki, stífleika í mjóbaki, eymsli í vöðvum hægra megin í mjóbaki.
Eftir það tókust ákærði og bróðir fórnarlambsins á en þegar árásarmaðurinn varð þess áskynja að lögreglan var á leiðinni lét hann sig hverfa ásamt félaga sínum.
Við yfirheyrslur og fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við málið og hafi aldrei komið í það hús sem um er rætt. Hann hafi eflaust verið heima hjá sér það kvöld og kona hans geti vottað það. Um ástæður kærunnar veit hann ekki en getur sér þess til að kærandi sé reið út í hann, því hann hafi hafnað tilboði hennar um að sænga hjá henni og vinkonu hennar saman.
Mörg vitni báru þó að um þennan mann hafi verið að ræða, m.a.s. félagi hans sem var með honum, en ákærði getur sér þess til að kærða hafi fengið þann mann til að ljúga upp á sig til að koma honum í koll.
Þrátt fyrir að maðurinn hafi neitað sakargiftum taldi dómurinn sannað að hann hafi komið óboðinn inn á heimilið og veist þar að kæranda. Hann var því dæmdur, eins og áður kom fram, í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda að upphæð 220.116 krónur.