Skila skýrslu um framtíðarsýn í leikskólamálum
- til bæjaryfirvalda í Sandgerði
Vinnuhópur um framtíðarsýn í leikskólamálum hefur skilað skýrslu og tillögum til bæjaryfirvalda í Sandgerði. Bæjarráð Sandgerðisbæjar skipaði vinnuhóp sl. haust um framtíðarsýn í leikskólamálum.
Í erindisbréfi fyrir vinnu hópsins kemur fram að honum var falið að skoða eftirfarandi þætti:
Að fara yfir og leggja mat á þróun nemendafjölda til framtíðar. Að fara yfir og meta núverandi húsnæði leikskólans og gera tillögur um húsnæðismál skólans til framtíðar. Að fara yfir og meta samstarf Sandgerðisbæjar við Hjalla ehf. um rekstur skólans m.a. með gerð könnunar, og gera tillögur um rekstrarfyrirkomulag til framtíðar. Að fara yfir og skoða hvernig unnt er að veita öllum leikskólabörnum þjónustu við hæfi. Að fara yfir og skoða mögulegar leiðir til sparnaðar. Að leggja mat á kostnað við þær tillögur sem fram koma.
Hópurinn hefur nú skilað skýrslu með tillögum og hafa þær verið afgreiddar í bæjarráði og fræðsluráði. Í skýrslu hópsins koma fram eftirfarandi tillögur:
Hópurinn leggur til að samstarfssamningur við Hjalla ehf. verði framlengdur um 2 ár, til 1.ágúst 2017. Hópurinn leggur til að leikskólahús í eigu bæjarins við Stafnesveg, Skerjaborg, verði flutt á lóð Sólborgar og tengt við núverandi húsnæði leikskólans. Með þessum hætti verður rýmra um bæði börn og starfsmenn og sú fjárfesting sem Skerjaborg var fyrir bæjarfélagið á sínum tíma verður loksins nýtt með sómasamlegum hætti.
Hópurinn leggur til að gerðar verði breytingar á lóð Sólborgar sem miða að því að auka nýtingu lóðarinnar og þar með víkka út það svæði sem börnin hafa til útiveru. Áætlun um það verði samin í samráði við Hjalla ehf. og sett á fjárhagsáætlun 2016. Hópurinn leggur til að niðurgreiðslur vegna dagvistunar barna verði hækkaðar. Með því móti verði komið betur til móts við foreldra barna sem ekki hafa náð leikskólaaldri.
Hópurinn leggur til að kannað verði hvort Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður séu reiðubúin til samstarfs í leikskólamálum. Markmiðið væri að auka val foreldra um uppeldisstefnu og að foreldrar geti sótt um leikskólapláss fyrir börnin sín í því sveitarfélagi sem best hentar með tilliti til atvinnu. Hópurinn leggur til að gott samstarf Grunnskólans og Sólborgar verði eflt enn frekar með það í huga að elsti árgangur Sólborgar auki viðveru sína í grunnskólanum.
Hópurinn hvetur til þess að bæjaryfirvöld haldi umræðu opinni um vænlega staðsetningu nýrrar leikskólabyggingar og í framhaldi af því móta stefnu og stærð nýs leikskóla. Forvinnu væri þá lokið þegar að því kemur að núverandi leikskóli verður of lítill. Bærinn kæmi þá til með að sjá um rekstur annars leikskólans innan bæjarins og óháður rekstraraðili sæi um rekstur hins leikskólans. Eignirnar Sólheimar 1 og 3 yrðu þá seldar.
Bæjarráð Sandgerðisbæjar afgreiddi tillögurnar með eftirfarandi hætti:
Samþykkt var tillaga um að framlengja samningi við Hjallastefnuna ehf. um rekstur Sólborgar um tvö ár eða til 1. ágúst 2017. Tillögu um mögulegan flutning á Skerjaborg á lóð Sólborgar var vísað til skoðunar hjá sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingasviðs í samstarfi við stjórnendur Hjallastefnunar ehf.
Tillögu um breytingar á lóð Sólborgar var vísað til skoðunar hjá sviðsstjóra umhverfis-, skipulags- og byggingasviðs í samstarfi við stjórnendur Hjallastefnuna ehf.
Tillögu um hækkun á niðurgreiðslum vegna dagvistunar barna var vísað til skoðunar við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2016
Tillögu um að gott samstarf grunnskólans og Sólborgar verði eflt enn frekar með það í huga að elsti árgangur Sólborgar auki viðveru sína í grunnskólanum, var vísað til skoðunar hjá stjórnendum skólastofnananna tveggja.
Þá tók bæjarráð undir með vinnuhópnum um að halda þurfi umræðu um framtíðarsýn í leikskólamálum opinni.