Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skila af sér sveitarfélagi með stöðugan rekstur og mikinn fjárhagslegan styrk
Miðvikudagur 20. desember 2017 kl. 09:38

Skila af sér sveitarfélagi með stöðugan rekstur og mikinn fjárhagslegan styrk

„Bæjarstjórn [Sveitarfélagsins Garðs] hefur undanfarin ár haft það að megin markmiði að rekstur sveitarfélagsins skili jákvæðri rekstrarniðurstöðu og að fjárfestingar séu fjármagnaðar með skatttekjum. Þessi markmið hafa náðst. Við lok þessa kjörtímabils mun núverandi bæjarstjórn skila af sér sveitarfélagi með stöðugan rekstur og mikinn fjárhagslegan styrk til að standa undir fjárfestingum næstu ára,“ segir í bókun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs með fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2018 til 2021. Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða.
 
„Með afgreiðslu fjárhagsáætlunar að þessu sinni eru ákveðin tímamót, þar sem áætlunin er sú síðasta sem núverandi bæjarstjórn vinnur og afgreiðir. Þá felast ekki minni tímamót í því að þessi fjárhagsáætlun er sú síðasta sem unnin er í nafni Sveitarfélagsins Garðs, þar sem eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2018 mun sveitarfélagið sameinast Sandgerðisbæ,“ segir jafnframt í bókuninni.
 
Í rekstraráætlun fyrir árið 2018 eru heildartekjur A og B hluta áætlaðar 1.490 mkr. Þar af eru skatttekjur áætlaðar 903,7 mkr., eða 60,6% af heildartekjum. Framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru áætluð 383,6 mkr., eða 29,3% af heildartekjum. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 113,3 mkr., eða 7,6% af heildartekjum. Rekstrarniðurstaða rekstraráætlunar A og B hluta er áætluð 24,9 mkr. Rekstrarafgangur A hluta sveitarsjóðs er áætlaður 30,9 mkr.
 
Heildareignir fyrir A og B hluta Sveitarfélagsins Garðs eru áætlaðar 3.323,4 mkr. í árslok 2018. Áætlað er að heildar skuldir og skuldbindingar verði 602,6 mkr., þar af lífeyrisskuldbindingar 238,5 mkr. og leiguskuldbinding 105,4 mkr. Vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir 58,9 mkr. í árslok 2018. Hlutfall heildar skulda og skuldbindinga af heildartekjum (skuldahlutfall) er áætlað að verði um 40% í árslok 2018 og í árslok 2021 um 36%.
 
Veltufé frá rekstri í áætlun fyrir A og B hluta er áætlað 142,3 mkr., eða 9,6%. Veltufé frá rekstri samtals árin 2018-2021 er áætlað alls 624,2 mkr. Handbært fé frá rekstri er áætlað 136,3 mkr. árið 2018 og samtals 594,2 árin 2018-2021. Afborganir langtímalána eru áætlaðar 7,4 mkr. árið 2018. Fjárfestingar og framkvæmdir 2018 eru áætlaðar alls 170,5 mkr. Í árslok 2018 er áætlað að handbært fé nemi 372,6,mkr. og 507 mkr. í lok áætlunartímabilsins árið 2021.
 
Bæjarstjórn þakkaði á fundinum bæjarstjóra, starfsfólki á bæjarskrifstofu og forstöðumönnum stofnana sveitarfélagsins fyrir vandaða og góða vinnu við vinnslu fjárhagsáætlunar. Jafnframt þakkar bæjarstjórn fyrir ítarlega og faglega greinargerð bæjarstjóra um fjárhagsáætlun. Góð samvinna og samstaða hefur verið um vinnslu fjárhagsáætlunar, sem leggur grunn að góðum árangri við að fylgja fjárhagsáætlun eftir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024