Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skessan slapp við stórbruna - slökkviliðsmenn björguðu heimili stærsta íbúa Reykjanesbæjar
Sunnudagur 4. september 2011 kl. 02:10

Skessan slapp við stórbruna - slökkviliðsmenn björguðu heimili stærsta íbúa Reykjanesbæjar

Skessan í hellinum við smábátahöfnina í Gróf slapp við stórbruna fyrr í kvöld þegar glóð frá flugeldasýningu Ljósanætur fór í þakið á heimili hennar í hellinum við höfnina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þegar flugeldasýningin var hvað björtust á hátíðarsvæðinu í kvöld féll glóð af himnum og kveikti lítinn eld í þakinu hjá Skessunni. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja voru á staðnum viðbúnir því að eitthvað svona gæti gerst og voru því fljótir að ráða niðurlögum eldsins, sem mun hafa verið minniháttar.


Fygir sögunni að Skessan hafi verið ánægð með viðbragð slökkviliðsmanna og boðið þeim í afganga af lummum frá því í gær, laugardag, en Skessan var með lummuveislu fyrir börn á öllum aldri. Í dag, sunnudag ætlar Skessan að taka á móti börnum sem hafa teikningar og bréf sem síðan verða birt á heimasíðu Skessunnar, skessan.is. Hugsanlega berast teikningar af húsi skessunar með logandi eld á þaki og bjarta flugeldasýningu á himni.


Myndin er frá flugeldasýningunni í kvöld. Sé myndin skoðuð vel má sjá ljós í glugganum hjá Skessunni, enda ekki svefnsamt í þeim látum sem voru fyrr í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi