Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skemmtistaðir loka fyrr og dyraverðir í beinu sambandi við lögreglu
Þriðjudagur 29. maí 2007 kl. 23:32

Skemmtistaðir loka fyrr og dyraverðir í beinu sambandi við lögreglu

Reykjanesbær og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum skrifuðu í dag undir samkomulag við forsvarmenn skemmtistaða í Reykjanesbæ um nýjar leiðir í vörnum gegn ofbeldi og fíkniefnanotkun í bæjarfélaginu. Samstarf lögreglu og skemmtistaða verður náið og opnunartími styttur.

Forráðamenn Reykjanesbæjar, lögreglu og skemmtistaða hafa komið sér saman um aðgerðir til að koma í veg fyrir ofbeldi og fíkniefnianotkun á skemmistöðunum í bæjarfélaginu. Opnunartími verður færður fram frá 1. júní þannig að síðustu gestir fá aðgang klukkan hálf fimm að nóttu en staðirnir munu loka klukkan fimm.

Veitingamenn hafa skuldbundið sig með því að tryggja einn til tvo dyraverði á hverjum stað og að þeir muni sækja námskeið um grundvallaratriði í dyravörslu sem og að dyraverðir verði af báðum kynjum. Dyraverðir munu bera gul einkennisvesti og hafa beint talstöðvarsamband við lögregluna en lögreglan stefnir að því að vera mætt á staðinn inn 3 mínútna frá útkalli. Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri, segir að það eigi að vera gerlegt, þar sem lögreglubílum í umdæmi lögreglunnar sé að fjölga og mannaður lögreglubíll verði ávallt á Hafnargötu eða í næsta nágrenni þegar næturlífið er í blóma. 

Valdi einstaklingur ítrekað ónæði eða gerist brotlegur á skemmtistað sem kallar á afskipti lögreglu missir viðkomandi einstaklingur við það aðgang að öðrum skemmtistöðum í bæjarfélaginu.

Í tengslum við samninginn hefur Reykjansebær og Lögreglan komið upp öryggismyndavélum í miðbænum til eftirlits í nágrenni skemmtistaða við Hafnargötu. Nú þegar hafa verið settar upp þrjár myndavélar sem hafa góða yfirsýn yfir Hafnargötuna allt frá veitingahúsinu Ránni og upp fyrir Paddy's. Fjórða myndavélin er væntanleg neðar á Hafnargötuna og er hinni ætlað að vakta svæðið umhverfis Ný-Ung.

Jóhann Halldórsson, veitingamaður á Paddy's, sagðist í samtali við Víkurfréttir ánægður með þetta samstarf veitingamanna, lögreglu og Reykjanesbæjar. Það sé gott að veitingamenn taki höndum saman, samræmi þann tíma sem staðirnir loka og takist þannig á við það viðurkennda vandamál sem ölvun fólks seint um nætur sé. Fram hafi komið í könnun lögreglu að flest ofbeldisverk eigi sér stað í miðbænum milli kl. 04 og 08 á morgnanna. Jóhann veitingamaður á Paddy's sagðist einnig vonast til að með þessu megi breyta þeirri þróun að fólk sé að fara út á lífið um kl. 03 á nóttunni.

Þau veitingahús sem taka þátt í samkomulaginu eru:
Veitngahúsið Paddys, veitingahúsið Trix, veitingahúsið Ráin, veitingahúsið H.-inn, veitingahúsið Yello, veitingahúsið Kaffi Duus og veitingahúsið Stapi.

Samkomulagið tekur gildi 1. Júní 2007 og verður endurskoðað að ári.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024