Skemmtilegar hugleiðingar um mávinn
Skemmtilegar hugleiðingar eru á heimasíðu Sandgerðisbæjar um mávinn en hann telst í þúsundatali í nágrenni Sandgerðisbæjar. Greinarritari segir í hugleiðingum sínum að hann hafi lesið grein í Morgunblaðinu þar sem rætt var við fuglafræðing. Sá hafi sagt að í stórum hópi máva væru aðeins nokkrir á höttunum eftir ungum. Margir líta mávinn hornauga og er hreinlega illa við hann. Greinarritari kemst að annarri niðurstöðu en hér fyrir neðan eru hugleiðingarnar birtar í heild sinni.
Hugleiðing um mávinn
Ég las um daginn grein í Mbl. þar sem rætt var við fuglafræðing. Með orðum sínum gaf hann mér nýja sýn á mávinn, þennan vakra, yfirvegaða fugl sem býr hér í holtum í þúsunda tali. Þeir sem hafa fylgst með mávinum sjá hann gjarnan gleypa litla unga, éta hræ og úrgang og raunar allt sem hægt er að setja upp í mávs-gogg. Séð hef ég hann murka lífið úr kríuunga og þó að kríurnar væru brjálaðar allt í kringum hann þá hélt hann sinni ró við að murka lífið úr unganum. Ekki falleg sjón það!
Langflestum er illa við þennan fugl, sjá skrattann sjálfan í honum og finnst hann viðurstyggð sem helst ætti að útrýma. Fáir sjá þennan sama óvin í hrafninum sem þó étur líka allt sem að goggi kemur. Hvorugur þessara fugla eru miklir veiðigarpar eða flinkir flugfuglar eins og t.d. smyrillinn. En hrafninn er einhvern veginn meira sjarmerandi og það er ekki eins rosalega mikið af honum, a.m.k. ekki hér á Suðurnesjum. En þá kem ég að sjálfu erindinu, en það voru þau orð sem þessi fuglafræðingur lét falla um mávinn. Hann sagði að í stórum hópi máva væri kannski einn eða tveir á höttunum eftir ungum, hinir ætu orma, hræ og úrgang og þeir mávar sem héldu sig niðri við tjörn í Rvk. væru langflestir að ná sér í brauðmola. Það virðist sem sagt vera með mávinn eins og manninn, flestir eru sakleysingjar en þeir fáu mávar sem raða í sig eggjum og ungum annarra fugla setja svartan blett á stofninn. Ég er að reyna að horfa nýjum augum á mávinn, reyna að gefa honum tækifæri til að vinna sig í álit hjá mér þó að hann kæri sig líklega kollóttan. Þetta gengur hægt en er þó á réttri leið.
HV
Myndin: Úr myndasafni VF.is