Skemmtiferðaskipið NatGeo Endurance við Keflavík
Enn eitt skemmtiferðaskipið átti leið hjá Keflavík og mátti sjá þessa glæsilegu fleytu þar sem hún lá fyrir utan Keflavík í gær en skipið er á ævintýrasiglingu um Ísland.
Á vef Lindblad Expeditions, sem skipuleggur ferðir til ævintýralegra áfangastaða, segir að skipið sé 406 fet að lengd og taki 126 farþega í 69 káetum. Lífið um borð býður upp á alls kyns þægindi, káeturnar eru með stórum gluggum sem gefa gott útsýni og auðvitað eru veitingastaðir, æfingasalir, yogastúdíó og fleira umborð. Þá er skipið með Zodiac-báta, kayaka, fjarstýrðan myndavélabúnað fyrir neðansjávarmyndatökur og alls kyns búnað til afþreyingar fyrir gestina.
Skipið vakti talsverða athygli og fjöldi fólks gerði sér ferð að sjávarsíðunni til að skoða skipið þar sem það lá skammt frá landi.
VF-myndir: JPK