Skemmri samningur hefði hindrað fjárfestingar
Ef samningur um auðlindanýtingu í Svartsengi hefði verið til skemmri tíma en 65 ára, er óvíst hvort ráðist hefði verið í stækkun virkjunarinnar í áföngum, að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS Orku.
Auðlindin í Svartsengi var keypt af einkaðilum með gerðardómi fyrir 34 árum. Virkjunin hefur síðan verið stækkuð í áföngum, síðast um 30 MW árið 2007 og annað eins árið 1999.
„Með samningi um auðlindanýtingu til 65 ára er mjög óvíst að ráðist hefði verið í þessa áfanga og nokkuð víst að það hefði ekki verið gert ef tíminn hefði verið skemmri en 65 ár. Enn eru hugmyndir um að á þessu svæði geti verið möguleikar til frekari virkjana en öll slík áform og nauðsynlegar rannsóknir yrðu lögð til hliðar í slíku umhverfi,“ segir Júlíus.
Tímalengd samnings HS Orku og Reykjanesbæ um nýtingarétt á orkuauðlindinni hefur sætt harðri gagnrýni en hann er til 65 ára. Þá hafa komið fram efasemdir um hversu hagstæður samningurinn er fyrir Reykjanesbæ. Í Kastljósi á mánudaginn lýsti Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra þeirri skoðun sinni að samningurinn gengi gegn anda orkulaga. Tímalengdin er þó innan ramma laganna en kveðið er á um að samningsaðilar geti tekið samninginn upp á miðjum samningstímanum og ákveðið framlengingu hans eða uppsögn, sem metið skuli eftir forsendum beggja aðila. Katrín telur að búið sé að ákveða út á hvað viðræðunar skuli ganga að þessum tíma liðnum, þ.e. einungis sé rætt um framlenginu. Þannig sé verið að binda hendur þeirra sem þá munu fjalla um samninginn fyrir hönd bæjarins eða eigenda orkuauðlindanna.
Í svarbréfi til ráðherra benda bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ á að afskriftatími virkjana Landsvirkjunar er 60 ár. Það sé ógerningur að sjá hvernig land undir virkjanir eigi að hafa styttri leigutíma en afskriftatími virkjunarinnar sjálfrar sé. „Myndi einhver byggja sér heimili ef hann hefði ekki leigu- eða eignarsamning um lóðina sem byggt er á nema til skamms tíma ? Myndi einhver byggja virkjun fyrir tugi milljarða ef hann hefði ekki leigusamning um landið undir henni ?“ er spurt í svarbréfinu til ráðherra.
Svarbréfið til ráðherra má lesa í heild sinni í annarri tengdri frétt, hér.