Skemmdi tug bílaleigubíla og ataði mannasaur
Skemmdarvargur olli milljóna tjóni á tug bílaleigubíla í Innri Njarðvík í gærkvöldi. Bílarnir voru rispaðir og dældaðir, speglar og rúður brotnar og þá var mannasaur atað á bíla.
Aðkoman að bílaleigubílunum var vægast sagt ógeðsleg en inni á milli bílanna hafði skemmdarvargurinn leyst niður um sig buxurnar og skitið í nærbuxur sínar. Saurnum hafði svo verið makað og kastað í bíla.
Skemmdarverkin á bílunum hafa að öllum líkindum verið unnin á tímabilinu 20:30 til 22:00 í gærkvöldi. Rannsóknardeild lögreglunnar var kölluð til þegar málið kom upp í gærkvöldi en nú er biðlað til vegfarenda sem voru á ferðinni við gömlu Gokart-brautina í Innri Njarðvík í gærkvöldi á þessum tíma en bílaleigan er í húsi við brautina og bílarnir sem voru skemmdir stóðu allir á eða við gömlu Gokart-brautina.
Eigendur bílaleigunnar segja tjónið bagalegt. Vont sé að missa svo marga bíla úr leigunni nú þegar vertíðin sé að byrja.
Meðfylgjandi myndir voru teknar á vettvangi skemmdarverkanna seint í gærkvöldi.
Þessi bifreið var einna verst útlítandi eftir aðfarir skemmdarvargsins í gærkvöldi.
Skemmdarvargurinn hafði leyst niður um sig buxurnar og skitið í nærbuxurnar sem sjást liggjandi undir þessum bíl. Saur var svo makað á bílinn og grjótið sem einnig virðist hafa verið notað til að brjóta bílrúður.
Lögreglan á vettvangi við bílaleiguna í gærkvöldi.
Litlar dældir eru víða á bílum og einnig rispur, bæði stórar og smáar.