Skemmdarvargar valda sorg hjá leikskólabörnum
Það er ávallt gleði hjá börnunum á leikskólanum Akri þegar þau mæta í skólann sinn á morgnanna. Í morgun var börnunum hins vegar brugðið og þau urðu mörg hver sár þegar í ljós kom að skemmdarvargar höfðu verið á ferð um helgina við leikskólann þeirra og skemmt kofa sem börnin voru með í byggingu.
Kofabyggingin var verkefni sem nokkrar litlar stelpur á leikskólanum unnu að ásamt kennara sínum. Þó svo þau hafi verið svekkt og sár í morgun þá ætla þau ekki að láta skemmdarvarga eyðileggja fyrir sér gleðina sem fylgir því að byggja kofa og ætla að hefjast handa að nýju við bygginguna.
Því er beint til foreldra barna og ungmenna í Innri Njarðvík að ræða það við börnin sín að eyðileggja ekki fyrir öðrum. Útileiksvæðið við leikskólann Akur er opið börnunum í hverfinu til að leika sér á eftir að skóladegi lýkur á leikskólanum. Það má hins vegar ekki skemma það sem leikskólabörnin eru að vinna að.
Mynd: Stelpu-hópurinn á Akri sem var að byggja kofann sem búið var að eyðileggja þegar þau komu í skólann í morgun. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi.