Skemmdarvargar herja á Fréttablaðið
Í kjölfar þess að Fréttablaðið hætti útburði til heimila á Suðurnesjm hafa verið settir upp svokallaðir Fréttablaðskassar til að íbúar þess gætu sótt sér Fréttablaðið sér að kostnaðarlausu.
Þau bæjarfélög sem heimiluðu uppsetningu kassana voru Garður, Sandgerði, Vogar, auk þess sem kassarnir eru á Keilissvæðinu og í Höfnum. Þá eru einnig Fréttablaðskassar í Grindavík.
Skemmst er frá því að segja að lesendur hafa tekið þessari nýbreytni vel og hefur mikil ásókn verið í blöðin á umræddum stöðum, segir í tilkynningu frá Pósthúsinu, dreifingarfyrirtæki Fréttablaðsins.
„Því miður hefur borið á því að skemmdarvargar eru að eyðileggja kassana og brjóta þá niður. Svo rammt hefur kveðið að þessum skemmdarverkum að þurft hefur að skipta út sumum kössum allt að þrisvar sinnum á einni viku. Það er afar kostnaðarsamt að endurnýja kassa, en hver kassi kostar um 20.000 kr og að auki er ekki hægt að setja blöð í kassa sem eru laskaðir. Hefur þetta ástand nánast verið viðvarandi á þessum stöðum með smá hléum inn á milli,“ segir jafnframt í tilkynningunni.
Mest hefur borið á þessum skemmdarverkum í Garði, en því miður eiga skemmdarverkin sér stað í öllum bæjarfélögum Suðurnesja. „Mikilvægt er að koma í veg fyrir skemmdarverk af þessum toga að öðrum kosti þarf að draga úr dreifingu á Fréttablaðinu í núverandi mynd“ segir í tilkynningu frá Pósthúsinu.