Skelræktendur ræddu málin í Sandgerði í dag
-Fyrirtæki á Suðurnesjum í fremstu röð í Skelrækt hér á landi
Skelrækt, Félag skelræktenda á Íslandi, hélt í dag ráðstefnu í Samkomuhúsinu í Sandgerði undir heitinu Skeldýrarækt á Íslandi 2013. Ýmis áhugaverð erindi voru á dagskrá og voru yfir 50 manns, sem allir starfa eða hafa tengingu við skelrækt á Íslandi, sem sóttu ráðstefnuna.
Að ráðstefnunni lokinni hélt hópurinn í Þekkingasetrið á Suðurnesjum, sem staðsett er í Sandgerði, og var farið yfir starfið sem unnið er þar. Aðalfundur Skelræktar fer einmitt fram á morgun, laugardag og verður haldinn í Þekkingarsetrinu.
Bergsveinn Reynisson, formaður Skelræktar, segir fundinn í dag í Sandgerði hafa heppnast vel. Nokkur vöxtur er í þessum geira hér á Suðurnesjum og segir Bergsveinn að fyrirtækin hér á Suðurnesjum hafi sannað að möguleikarnir til kræklingarræktar eru síst minni hér á landi en annars staðar í heiminum. Tvö fyrirtæki á Suðurnesjum starfa í Skelrækt en það eru Vogaskel í Vogum og Óskaskel í Reykjanesbæ og hafa náð frábærum árangri í greininni á undanförnum árum.
Ráðstefnan hjá Skelrækt var vel sótt í dag.