Skáru troll úr skrúfu 12 mílur vestur af Sandgerði
Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein var í gær kallað til aðstoðar togveiðiskipinu Hauk EA 76 sem statt var 12 sjómílur vestur af Sandgerði. Skipverjar höfðu fengið trollið í skrúfuna og hafði vél skipsins stöðvast.
Tveir kafarar gengu rösklega til verks og tók skamma stund að skera trollið laust. Gott veður var á vettvangi en það gerir svona vinnu auðveldari fyrir kafara.
Myndin var tekin frá björgunarskipinu í gær.