Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skapar mörg störf hjá Verkfræðistofu Suðurnesja
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS á framkvæmdasvæðinu við flugstöðina eftir undirritun samningsins. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 3. maí 2021 kl. 15:19

Skapar mörg störf hjá Verkfræðistofu Suðurnesja

Verkfræðistofa Suðurnesja mun sinna framkvæmdaeftirliti og ráðgjöf vegna nýbyggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Isavia undirritaði hefur undirritað samning við Verkfræðistofu Suðurnesja um framkvæmdaeftirlit og ráðgjöf vegna nýrrar viðbyggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum og eru hluti af vinnu við ýmis verkefni sem tengjast stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og umbótum á Keflavíkurflugvelli í framhaldi af hlutafjáraukningu ríkisins í Isavia. Mörg hundruð ný störf verða til í sumar í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið á síðustu mánuðum með útboðum og verðkönnunum. 

Viðamesta framkvæmdin er fyrirhuguð stækkun austurbyggingar flugstöðvarinnar. Þrjú tilboð bárust í framkvæmdaeftirlit og tilheyrandi ráðgjöf í tengslum við framkvæmdirnar. Lægsta tilboðið var frá Verkfræðistofu Suðurnesja (VSS), 200 milljónir króna. Aðrir sem buðu í verkið voru JT Verk og Hnit. Tilboð VSS var samþykkt og í dag undirrituðu Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, og Brynjólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri VSS, samninginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 „Þetta er mikilvægt skref fyrir okkur öll sem höfum verið að undirbúa næstu áfanga í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Segja má að samningurinn við VSS marki viss tímamót. Heimsfaraldurinn hefur haft gríðarlega mikil áhrif á okkur en það er afar ánægjulegt að hafa núna fengið tækifæri til að hefja vinnu við uppbyggingaráætlun flugvallarins á ný. Við hlökkum til að sjá framkvæmdaumsvifin hefjast á ný og bíðum spennt eftir því að flugsamgöngur komist einnig smám saman í eðlilegt horf,“ segir Sveinbjörn Indriðason

„Við hjá VSS erum mjög ánægð. Samningurinn við Isavia um eftirlit og ráðgjöf vegna framkvæmdanna við austurbyggingu flugstöðvarinnar tryggir mikilvæg störf hér á Suðurnesjum, bæði fyrir verkfræðinga og annað tæknifólk, þetta mun skapa okkur 4-6 störf næstu tvö árin. Þá eru ótalin störf við sjálfar framkvæmdirnar. Vonandi fara hjólin að snúast hraðar – ekki síst hér á Suðurnesjum,“ segir Brynjólfur Guðmundsson. Hjá VSS starfa nú 15 manns sem allir nema einn eru búsettir á Suðurnesjum og hefur verkfræðistofan aðsetur í Reykjanesbæ. 

Samningurinn við VSS er ekki eingöngu bundinn við fyrsta áfanga austurbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og því mun VSS mögulega einnig koma að eftirliti og ráðgjöf vegna annarra verkefna sem eru á döfinni á Keflavíkurflugvelli á komandi mánuðum.