Skáli Íslendings formlega vígður í Reykjanesbæ
Skáli Íslendings og sýning Smithsonian, Vikings- The North Atlantic Saga, voru formlega opnuð í dag við hátíðlega athöfn í Reykjanesbæ. Það er ferðaþjónustufyrirtækið Íslendingur ehf. sem á og rekur Skála Íslendings. Skálinn var teiknaður af Guðmundi Jónssyni arkitekt í Noregi, utan um Íslending, hið víðförula víkingaskip, og er nú þegar orðinn einn af þekktari kennileitum Reykjanesbæjar. Framkvæmdir hófust vorið 2007 og er þeim nú lokið. Jafnframt er stærstur hluti af sýningu Smithsonian kominn upp. Ennþá vantar þó um 20 margmiðlunarskjái sem munu miðla miklum fróðleik um víkinga og ferðir þeirra yfir noður-Atlantshafið.
Við vígslu sýningarhússins við Víkingabraut á Fitjum í dag var farið ítarlega yfir byggingarsöguna og aðdraganda hennar. Á sýningu Smithsonian eru fjölmargir fágætir gripir, en sjálfur Íslendingur, víkingaskipið sem Gunnar Marel Eggertsson smíðaði, spilar stærsta hlutverkið í sýningunni.
Bygging skálans var í höndum Spangar og framkvæmdin stóðst þá kostnaðaráætlun sem upphaflega var sett. Minniháttar breytingar urðu á verkinu á framkvæmdatímanum. Þannig var hætt við að hafa gólfdúk á gólfi sýningarskála Íslendings og þess í stað sett á það steinteppi með möl úr landnámsfjörunni við Höfn í Hornafirði.
Guðmundur Jónsson, arkitekt hússins, útskýrði sína sýn á framkvæmdina við athöfnina í dag. Guðmundur er starfandi í Noregi og flaug reglulega á milli Noregs og Íslands með Icelandair. Þannig urðu margar hugmyndir ljóslifandi á ælupokum um borð í flugvélunum, en Guðmundur notaði pokana mikið til að teikna á þá á leiðinni yfir hafið.
Víkingaheimar hafa verið opnir í tilraunaskyni síðan í maí á þessu ári en nú má segja að starfsemin sé komin á fulla ferð. Eins og áður sagði eru þó væntanlegir margmiðlunarskjáir og tilheyrandi tölvubúnaður og útisvæðið við sýningarskálann er í stöðugri þróun. Þar er nú komið stórt og mikið víkingatjald og þar mátti í dag sjá víkinga við eldstæði og smíðar.
Efsta myndin:
Árni Sigfússon bæjarstjóri og Gunnar Marel Eggertsson skipasmiður láta pening falla í stæði mastursins á Íslendingi. Steinþór Jónsson framkvæmastjóri Íslendings ehf. og Elisabeth Ward sýningarstjóri halda á hornum en þau höfðu skömmu áður látið mjöð renna úr hornunum í stæði mastursins. Þetta mun vera víkingasiður.
Skáli Íslendings á Fitjum í Reykjanesbæ.
Margir athyglisverðir sýningargripir eru á sýningu Smithsonian í nýja sýningarhúsinu.
Lifnaðarháttum víkinga eru gerð góð skil á sýningunni í Reykjanesbæ.
Fjölmargir gestir voru við vígslu hússins í dag.
Guðmundur Jónsson arkitekt hússins sýndi einn af fjölmörgum ælupokum sem hann notaði í flugvélum Icelandair á leið sinni yfir hafið þegar hann skissaði upp sýningarhúsið.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson