Skakkar forsendur í hagkvæmniathugun á flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja
Framsóknarfélag Reykjanesbæjar leggur áherslu á að gerð verði ítarlegri hagkvæmnisathugun á hugsanlegum flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Mikilvægt er að afla frekari upplýsinga svo að allar forsendur sé teknar með í reikninginn. Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi Framsóknarfélags Reykjanesbæjar á laugardag.
Þar segir einnig: Í hagkvæmniathuguninni kemur m.a. fram að núverandi húsnæði Landhelgisgæslunnar sé óviðunandi og standist ekki öryggisstaðla. Þar kemur einnig fram að Gæslan hafi nú tvær þyrlur til umráða en þurfi að hafa fjórar til að uppfylla starfsskyldur sínar. Á Reykjavíkurflugvelli er ekki möguleiki á að Gæslan geti stækkað við núverandi húsnæði sitt. Horfa verður til framtíðar. Að okkar mati færi best ef Gæslan flytji til Suðurnesja. Það er skynsamlegt og rökrétt.
Samkvæmt hagkvæmniathuguninni eykst rekstrarkostnaður Gæslunnar til muna ef hún yrði staðsett á Suðurnesjum, eða um 700 milljónir kr. á ári. Þessa tölu drögum við stórlega í efa þar sem, ekki er lagt mat á að með flutningunum mun rekstur og þjónusta gæslunnar aukast, styttra er á þjónustusvæði Gæslunnar frá Reykjanesbæ. Ekki er heldur lagt mat á að húsakostur sá er Landhelgisgæslunni stendur til boða er í raun eins og hannaður fyrir það hlutverk sem hún á að sinna. Það hlutverk sem Landhelgisgæslan fékk frá Varnarmálastofnun og sinnir á Ásbrú, er einnig í uppnámi og hætta er á að þau störf sem þar eru flytjast til úr landi, sinni Landhelgisgæslan þeim ekki.
Framsóknarmenn skora því á innanríkisráðherra að taka útréttri hönd Suðurnesjamanna og mynda starfshóp stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fyrst til að allar hliðar málsins liggi ljósar fyrir áður en ákvörðun verði tekin um staðsetningu Landhelgisgæslunnar til framtíðar.
Við íbúar Suðurnesja bjóðum Landhelgisgæsluna velkomna á Ásbrú þar sem hún á heima þegar hún flyst, segir að endingu.