Sjúkrabílaskortur á Suðurnesjum
Eftir harðan þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut við Flugvallarveg í kvöld þurfti að flytja þrjá slasaða einstaklinga frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) og áfram á sjúkrahús í Reykjavík. Aðeins eru þrír sjúkrabílar í Reykjanesbæ og því hefði enginn sjúkrabíll verið tiltækur í Reykjanesbæ ef þeir hefðu allir farið í þessa flutninga samtímis.
Læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja höfðu samráð um það að flutningi á einum slösuðum var seinkað þangað til annar af sjúkrabílunum tveimur sem fóru til Reykjavíkur með slasaða yrði kominn til baka til Suðurnesja. Sjúklingurinn var ekki það alvarlega slasaður að hann átti að þola bið á HSS þar til sjúkrabíll væri kominn til baka úr Reykjavík til að sækja hann.
Það má segja að í kvöld hafi hurð skollið nærri hælum en aðeins eru nokkrir dagar síðan allir sjúkrabílarnir þrír úr Reykjanesbæ voru samtímis í flutningum til Reykjavíkur. Til að bregðast við þessu ástandi er sjúkrabíllinn úr Grindavík settur í viðbragðsstöðu og hann þá hafður tiltækur við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Þá er einnig notast við neyðarbúnað eins og hjartatæki sem flutt eru með útkallsbílum slökkviliðs ef á þarf að halda.
Myndin að ofan var tekin þegar þriðji sjúkrabíllinn fór frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í kvöld og var sett aftur í viðbragðsstöðu hjá Brunavörnum Suðurnesja þar til sjúkrabíll væri kominn til baka að nýju úr sjúkraflutningi til Reykjavíkur. Þá er myndin að neðan úr umferðarslysinu í kvöld.
VF-myndir: Hilmar Bragi