Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sjúkrabílalaust í þrígang frá því kl. 18
Laugardagur 26. nóvember 2011 kl. 21:05

Sjúkrabílalaust í þrígang frá því kl. 18

Þrívegis hafa allir sjúkrabílar í Reykjanesbæ verið uppteknir í verkefnum frá því kl. 18:04 síðdegis. Þá hófst hrina útkalla og kl. 20:50 voru útköllin á sjúkrabílana orðin níu talsins. Af þessum útköllum hafa fimm endað með sjúkraflutningi til Reykjavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, BS, er annríkið mikið á slökkvistöðinni þessar síðustu klukkustundir. Þessi staða, að allir sjúkrabílarnir séu uppteknir á sömu stund, hefur komið oft upp á síðustu dögum og vikum. Sem betur fer hefur ekkert alvarlegt tilvik komið upp á meðan bílarnir hafa allir verið uppteknir. Hins vegar hefur hurð skollið nærri hælum og sjúkrabílar hafa verið kallaðir út í verkefni þegar þeir hafa nýlokið sjúkraflutningi til Reykjavíkur. Þannig kom sú staða upp um daginn að næsti bíll var staddur í Hafnarfirði þegar þurfti forgangsakstur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.


Hrinan í kvöld hófst þegar tveir sjúkrabílar voru á leiðinni til Reykjavíkur með sjúklinga og útkallið á þriðja bílinn kom til Sandgerðis. Þar hafði einstaklingur fallið í götuna utan við verslun. Viðkomandi var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og svo áfram á Landsspítalann. Síðan þá hefur hvert útkallið rekið annað og sú staða komið upp í þrígang að enginn sjúkrabíll var á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ.


Síðustu klukkustundir hefur snjóað hraustlega á Suðurnesjum og götur hálar og stundum blint í þéttri snjókomunni. Það hægir á öllum neyðarakstri.


Eins og áður hefur komið fram eru eingöngu þrír sjúkrabílar í umsjón Brunavarna Suðurnesja en voru fjórir áður. Fjórði bíllinn var hins vegar tekinn af BS vegna sparnaðar.


Meðfylgjandi myndir voru teknar í útkalli sjúkrabílsins í Sandgerði nú í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson