Sjúkrabílalaust í þrígang frá því kl. 18
Þrívegis hafa allir sjúkrabílar í Reykjanesbæ verið uppteknir í verkefnum frá því kl. 18:04 síðdegis. Þá hófst hrina útkalla og kl. 20:50 voru útköllin á sjúkrabílana orðin níu talsins. Af þessum útköllum hafa fimm endað með sjúkraflutningi til Reykjavíkur.
Að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, BS, er annríkið mikið á slökkvistöðinni þessar síðustu klukkustundir. Þessi staða, að allir sjúkrabílarnir séu uppteknir á sömu stund, hefur komið oft upp á síðustu dögum og vikum. Sem betur fer hefur ekkert alvarlegt tilvik komið upp á meðan bílarnir hafa allir verið uppteknir. Hins vegar hefur hurð skollið nærri hælum og sjúkrabílar hafa verið kallaðir út í verkefni þegar þeir hafa nýlokið sjúkraflutningi til Reykjavíkur. Þannig kom sú staða upp um daginn að næsti bíll var staddur í Hafnarfirði þegar þurfti forgangsakstur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Hrinan í kvöld hófst þegar tveir sjúkrabílar voru á leiðinni til Reykjavíkur með sjúklinga og útkallið á þriðja bílinn kom til Sandgerðis. Þar hafði einstaklingur fallið í götuna utan við verslun. Viðkomandi var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og svo áfram á Landsspítalann. Síðan þá hefur hvert útkallið rekið annað og sú staða komið upp í þrígang að enginn sjúkrabíll var á slökkvistöðinni í Reykjanesbæ.
Síðustu klukkustundir hefur snjóað hraustlega á Suðurnesjum og götur hálar og stundum blint í þéttri snjókomunni. Það hægir á öllum neyðarakstri.
Eins og áður hefur komið fram eru eingöngu þrír sjúkrabílar í umsjón Brunavarna Suðurnesja en voru fjórir áður. Fjórði bíllinn var hins vegar tekinn af BS vegna sparnaðar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í útkalli sjúkrabílsins í Sandgerði nú í kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson