Sjóvá hvetur fleiri íbúa til að innleiða Nágrannavörslu
Sjóvá stóð fyrir fundi um nágrannavörslu í Reykjanesbæ í liðinni vikunni. Á fundinn mættu m.a. fulltrúi sveitarfélagsins og lögreglan. Ljóst er að íbúar hafa nokkrar áhyggjur af því að árið 2009 varð um 65% aukning innbrota og ef fram sem horfir verður aukningin um 15% á þessu ári. Lögreglan hefur lagt aukna áherslu á þennan málaflokk og hefur það vafalaust skilað árangri. En lögreglan biðlar til íbúa um samstarf gegn glæpum og er nágrannavarslan eitt besta tækið til þess. Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróunina síðustu ár. Ef ekkert verður að gert, má reikna með 30 innbrotum síðustu 2 mánuði ársins.
Bílarnir skotmark
Sjóvá vill vara fólk sérstaklega við að geyma verðmæta hluti í bílum, GPS staðsetningartæki eru segull fyrir þjófa og sama má segja um jólagjafir sem geymdar eru í bílum.
Ólæst heimili = ótryggð heimili
Mikilvægt er að læsa alltaf heimilum áður en farið er að heiman. Þeir sem tryggja heimili sín (sem eru um 80% íbúa) vita það að ólæst heimili, eða opinn gluggi þegar enginn er heima gera tryggingar ógildar hvað þennan málaflokk varðar.
Hvað er nágrannavarsla?
Nágrannavarsla hefur fyrir löngu sannað sig sem mikilvægur hlekkur í að fækka glæpum og þá sérstaklega innbrotum á heimili, í bíla og almennum þjófnaði á eigum fólks. Þar sem nágrannavarsla er virk hefur skemmdarverkum einnig fækkað og dregið úr veggjakroti
Nágrannavarsla felst í samvinnu nágranna um að gera umhverfi sitt og heimili öruggari. Með því móti er leitast við að draga úr innbrotum, þjófnaði og skemmdarverkum. Nágrannavarsla hefur verið þekkt í áratugi og hefur víða verið sett upp með góðum árangri bæði á Íslandi og víða erlendis.
Sjóvá hefur látið gera handbók um nágrannavörslu og má nálgast hana á www.sjova.is. Handbókin er kærkomið verkfæri fyrir þá íbúa sem vilja koma nágrannavörslu af stað.
Húsnæði sem stendur autt til lengri tíma getur verið auðvelt skotmark innbrotsþjófa, hægt er að grípa til ýmissa ráðstafana til að draga úr líkum á innbroti. Gott er að geta leitað til nágranna þegar farið er í frí og fá þá til að líta til með húsnæðinu. Sumir skiptast á lyklum og fá nágranna til að fjarlægja póst, kveikja ljós hreyfa gluggatjöld og henda rusli í tunnuna. Einnig er hægt að fá nágranna til að nota bílastæði við heimilið.
Mikilvægt er að nágrannar séu almennt vakandi fyrir óvenjulegri umferð í sínu hverfi. Eftirtektarsamir einstaklingar hafa oft getað hjálpað til við að upplýsa mál með því að gefa lögreglu upplýsingar. Verði innbrotsþjófar og skemmdarvargar varir við að virkt eftirlit er í gangi eykur það líkur á því að þeir færi sig á önnur mið, segir í tilkynningu frá Sjóvá í Reykjanesbæ.