Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sjöunda gosið
Það er alveg ljóst að verkfræðingarnir vissu nákvæmlega hversu sárið austan varnar- og leiðigarðanna mætti vera breitt, því hraunið lagðist nákvæmlaga í slóðina sem ýturnar höfðu búið til. Þegar þarna var komið á mánudag var hraunstraumurinn orðinn mjög hægur og hrauntungan mjakaðist mjög hægt áfram. VF/Ísak Finnbogason
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 23. mars 2024 kl. 06:01

Sjöunda gosið

Sjö eldgos hafa orðið á Reykjanesskaganum á síðustu þremur árum. Sjöunda gosið hófst laugardagskvöldið 16. mars kl. 20:23. Fyrirboði gossins var stuttur, aðeins örfáar mínútur. Veðurstofan sendi út tilkynningu um yfirvofandi kvikuhlaup eða eldgos einni mínútu áður en gosið hófst. Eldgossins hafði þó verið beðið með eftirvæntingu í hálfan mánuð, eftir að kvikuhlaup varð um miðjan dag laugardaginn 2. mars.

Eldgosið sem hófst á laugardagskvöld var með öflugasta upphaf allra þeirra sjö eldgosa sem hafa orðið á Reykjanesskaganum á síðustu 36 mánuðum. Það sjá menn á magni gosefna sem komu upp í upphafi gossins. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands hefur greint frá því að 1.000 rúmmetrar af kviku hafi komið upp úr eldstöðinni á hverri sekúndu á fyrstu klukkustundunum. Þá hafi gervihnettir fangað mengunarský suður af landinu sem er það stærsta sem upp hefur komið úr öllum gosunum sjö.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hrauntunga frá eldgosinu rann yfir Grindavíkurveg, eins og 8. febrúar. Hrauntungan nú staðnæmdist um 100 metra frá Njarðvíkuræðinni, sem rofnaði í síðasta gosi. Þá fór einnig hrauntunga til suðurs og rann niður með leiðigarði austan við Grindavík. Verulega hægði á hrauntungunni og átti hún nokkur hundruð metra í Suðurstrandarveg þegar þetta var skrifað.

Þegar Víkurfréttir fóru í prentun á þriðjudagskvöld stóð gosið ennþá yfir og hraun rann frá gígum til suðurs, án þess þó að ógna innviðum.

Hér eru gígarnir syðst á gossprungunni sem enn voru virkir á þriðjudag þegar Víkurfréttir fóru í prentun.

Fyrsta gosið þriggja ára

Þann 19. mars voru liðin þrjú ár frá því fyrsta gosið á Reykjanesskaganum í 781 ár braust út í Geldingadölum í Fagradalsfjalli. Eldgosið hófst í kjölfar þriggja vikna jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en þrjár vikur þar sem skjálftarnir voru mældir í tugum þúsunda og margir það stórir að fólki þótti nóg um. Eldgosið í Geldingadölum stóð yfir í hálft ár. Landfræðilega var það vel staðsett og hraunið safnaðist upp í lokuðum dölum. Næst komst hraunið Suðurstrandarvegi með því að fylla Nátthaga af hrauni. Fyrsta gosið bar öll merki dyngjugoss, þar sem kvikan var frumstæð og kom djúpt að.

Næsta eldgos á Reykjanesskaganum hófst í Meradölum í Fagradalsfjalli þann 3. ágúst 2022. Upptök gossins voru aðeins um einn kílómetra frá upptökunum í Geldingadölum. Eins og fyrsta gosið þá varð eldgosið í Meradölum mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Því gosi lauk á þremur vikum.

Biðin eftir þriðja eldgosinu stóð til 10. júlí 2023. Það varð við Litla-Hrút, sem er ekki langt frá Meradölum en þó töluvert innar á Reykjanesskaganum og lengra frá innviðum. Því gosi fylgdu miklir gróðureldar sem slökkviliðsmenn börðust við dögum saman. Eldgosið við Litla-Hrút stóð í um fjórar vikur.

Brugðið var á það ráð að verja bæinn Hraun fyrir mögulegu hraunrennsli með því að setja upp varnargarð vestan við bæjarstæðið. Varnar- og leiðigarðar austan Grindavíkur beina hraunrennsli að bænum Hrauni og það eru ábúendur síður en svo glaðir með. Þegar ljóst var að hraun væri að renna nokkuð ákveðið í átt til sjávar með viðkomu á Hrauni var reistur varnargarður. Garðurinn lokaði m.a. Suðurstrandarvegi. Þegar hraunstraumurinn stöðvaðist var vegurinn opnaður að nýju.

Kvikugangur undir Grindavík

Áður en kom til fjórða eldgossins urðu afdrifaríkir atburðir í Grindavík. Fimmtán kílómetra langur kvikugangur varð til á nokkrum klukkustundum þann 10. nóvember. Gangurinn liggur í sjó fram í suðvestri við Grindavík, undir Grindavíkurbæ og langt upp í heiðina fyrir ofan bæinn í gegnum Sundhnúkagígaröðina. Mikill sigdalur myndaðist í Grindavík og bærinn var rýmdur að kvöldi 10. nóvember, enda gert ráð fyrir því að kvika gæti brotið sér leið til yfirborðs og ekki vitað hvar það gæti gerst. Ekkert varð eldgosið en miklar sprungur mynduðust í bænum og fjölmörg hús skemmdust eða eyðilögðust.

Fjórða gosið, við Sundhnúkagíga, hófst 18. desember 2023 kl. 22:17. Það hófst af miklum krafti en það gaus á um fjögurra km. langri sprungu. Þrátt fyrir að mikið magn hrauns hafi komið upp ógnaði það ekki innviðum, var sagt hafa komið upp á góðum stað. Þetta eldgos var það fyrsta í hrinu eldgosa sem síðan hafa orðið. Gosið sem varð 18. desember hafði látið bíða eftir sér en allur aðdragandi þess var vel vaktaður af Veðurstofu Íslands, Almannavörnum og öðrum stofnunum. Á þessum tímapunkti hafði verið reistur varnargarður umhverfis orkuverið og Bláa lónið í Svartsengi.

Hraun eyddi þremur húsum

Um áramótin var hafist handa við að reisa varnargarð ofan við byggðina í Grindavík. Þar var unnið í kappi við tímann þar sem menn voru farnir að læra inn á náttúruna og reiknuðu með fimmta gosinu á Reykjanesskaganum á næstu dögum. Það varð að nægileg kvika hafði safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp hún í Sundhnúkagígaröðina sunnudaginn 14. janúar. Þá um morguninn, kl. 7:57, byrjaði gos sunnarlega á gígaröðinni og náði gossprungan í gegnum varnargarðinn norðan við Grindavík. Megnið af hrauninu rann með leiðigörðum til vesturs ofan við byggðina. Nokkuð hraun rann innan garðanna en náði ekki til byggðar. Um hádegi þann 14. janúar opnaðist hins vegar lítil gossprunga skammt ofan við Efrahóp í Grindavík. Hraun rann úr henni og eyddi þremur húsum í bænum. Eldgosið stóð stutt og var lokið að mestu á tveimur sólarhringum.

Sjötta eldgosið varð svo að morgni fimmtudagsins 8. febrúar kl. 6:02. Það varð á svipuðum slóðum og gosið 18. desember. Það gos vakti athygli fyrir það að hraunið var þunnfljótandi og fór hratt yfir. Hrauntunga stefndi á Grindavíkurveg, fór yfir hann og alla leið að heitavatnsæðinni frá Svartsengi að Fitjum á Njarðvík. Hraunið rauf æðina og Suðurnes urðu heitavatnslaus í nokkra sólarhringa. Gosið var fljótlega eftir þetta yfirstaðið og nær alveg dautt sólarhring síðar.

Talsvert hraunrennsli var til vesturs á laugardagskvöld og hrauntungan rann á sömu slóðir og í gosinu 8. febrúar. Hraunið rann m.a. yfir Grindavíkurveg á sama stað og síðast en nú fór hraunið yfir breiðari kafla. Það gerir vegagerð yfir hraunið að meiri áskorun. Hraunið myndaði einnig tjörn við Grindavíkurveg og rann þar í átt að varnargörðum. Brugðið var á það ráð að loka skarðinu í varnargarðinn við Grindavíkurveg. Það má sjá á myndinni hér að neðan. Hrauntungan hélt svo áfram og ógnaði aftur innviðum eins og Njarðvíkuræðinni sem flytur heitt vatn frá Svartsengi að Fitjum. Að þessu sinni stöðvaðist hraunið um 100 metra frá lögninni, þannig að orkuinnviðir sluppu við tjón að þessu sinni.


Sjöunda gosið það stærsta

Biðin eftir sjöunda gosinu var lengri en vísindamenn ætluðu, og þó. Þann 2. mars birtust öll merki um yfirvofandi eldgos á mælitækjum. Kvika hljóp í nýjan kvikugang í Sundhnúkagígaröðinni milli Hagafells og Stóra-Skógfells. Kvikan náði ekki til yfirborðs og atburðarásin hófst að nýju. Biðin eftir eldgosi varð hálfur mánuður. Sjöunda eldgosið hófst með látum að kvöldi 16. mars. Gossprungan var lengst um 3,5 kílómetrar. Vísindamenn segja gosbyrjunina þá stærstu af þessum sjö eldgosum sem hafa orðið frá árinu 2021. Þegar þetta er skrifað stendur gosið enn yfir og hefur ekki skemmt neina innviði aðra en að hafa runnið yfir Grindavíkurveg á sömu slóðum og í febrúar.

Ísak Finnbogason