Sjötíu nýir íbúar í Garðinn

Sjötíu erlendir starfsmenn IGS munu setjast að í Garði í næsta mánuði. IGS hefur tekið húsnæðið sem áður hýsti Garðvang á leigu af nýjum eigendum. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, greinir frá því í vikulegum Molum á vef sveitarfélagsins að hann hafi átt fund í síðustu viku með bæjarfulltrúum og stjórnendum IGS um það sem framundan er og hvernig IGS muni halda utan um hópinn, sem er af báðum kynjum og mun sinna ýmsum störfum á Keflavíkurflugvelli. „Hér er um að ræða mikilvægt samstarfsverkefni sveitarfélagsins og IGS, með það að markmiði að bjóða þessa nýju íbúa velkomna og samlaga þá að samfélaginu. Þetta þýðir að íbúum sveitarfélagsins mun fjölga umtalsvert og tekjur sveitarfélagsins munu að sama skapi aukast,“ skrifaði bæjarstjórinn í Molum í síðustu viku.