Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 17. júlí 2001 kl. 16:19

Sjópróf hófust á Blönduósi síðdegis

Sjópróf vegna skipstapans norður af Skagafirði í nótt, þar sem togbáturinn Una í Garði GK-100 fórst en af henni er tveggja skipverja saknað, hefjast á Blönduósi klukkan 16. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fann í dag neyðarbauju skipsins skammt suður af þeim stað sem björgunarbátarnir fundust í morgun. Vélbáturinn Húni HU-62 er kominn til lands á Blönduósi með skipverjana fjóra sem björguðust af Unu í Garði en þeim bjargaði áhöfnin á Húna um klukkan átta í morgun.

Að sögn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fannst beyðarbaujan fljótt og vel. Illa gekk þó að koma auga á hana enda lítil. Þyrlan er hins vegar búin góðum miðunartækjum sem gerðu flugmönnunum kleift að staðsetja þyrluna beint yfir henni í sjónum en á slysstað var 15-20 hnúta vindur og nokkur sjór.

Neyðarmerki frá baujunni var fyrst numið af gervihnetti klukkan 3:58 sl. nótt. Hnötturinn sendi boð um merkið til björgunarmiðstöðvar í Bodø í Noregi sem sendi þau áfram til Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslunnar sem fengu boðin klukkan 4:05.

Á þessu stigi gaf hnötturinn upp tvær mögulegar staðsetningar merkisins. Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík bað flugvélar á þessum slóðum að hlusta eftir merkinu og klukkan 4:14 tilkynnti flugvél frá Air Canada að hún næmi daufa sendinu frá neyðarsendi. Flugvélin var þá stödd 63,47 gráðum norðlægrar breiddar og 18,58 vestlægrar lengdar.

Strax á þessum tíma þótti ljóst að engrar flugvélar var saknað á þeim slóðum sem gervihnötturinn gaf upp og því þótti líklegt að um skip væri að ræða, að sögn Flugmálastjórnar.

Klukkan 4:35 barst staðfesting á staðsetningu neyðarsendingarinnar frá gervihnettinum í gegnum björgunarmiðstöðina í Bodø. Þá var nokkurn veginn vitað hvaðan merkið barst. Landhelgisgæslan óskaði eftir því klukkan 5:21 að flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, yrði send til að leita að uppruna neyðarsendingarinnar, en flugvélin er búin góðum miðunartækjum.

Flugvélin fór í loftið í Reykjavík klukkan 6:00 og klukkan 6:20 tilkynnir flugmaðurinn að hann hafi greint neyðarsendinguna.

Klukkan 6:44 tilkynnir flugmaðurinn að hann sjá tvo gúmíbjörgunarbáta og reykmerki og að maður veifi til hans frá öðrum björgunarbátnum.

Klukkan 8:10 var búið að bjarga fjórum mönnum úr björgunarbátnum um borð í Húna HU-62. Fljótlega eftir það fór flugvél Flugmálastjórnar af svæðinu.

Fréttavefur Morgunblaðsins greinir frá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024