Sjónvarp VF: Tugmilljarða fjárfestingar á Ásbrú
- Leggja áherslu á að byggja upp góða samfélagsblöndu
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, leiðir nú félagið inn í tíunda starfsárið. Það var stofnað 24 dögum eftir brotthvarf Varnarliðsins haustið 2006 með það fyrir augum að umbreyta herstöð til borgaralegra nota. „Ásbrú er einstakt verkefni á Íslandi. Með því að umbreyta svæðinu í svæði frumkvöðla, fræða og atvinnulífs aukum við virði þess, ekki bara fyrir Suðurnesjamenn heldur landsmenn alla. Þar með skapast líka nýr nýtingargrundvöllur fyrir eignir sem ekki var til staðar áður,“ segir Kjartan. Hann segir í viðtali við Víkurfréttir að uppbygging á Ásbrú hafi í heildina gengið eftir þeim plönum sem lagt var upp með í byrjun. Suðurnesin væru ekki á sama stað efnahagslega ef til þessa verkefnis og þeirrar vinnu sem þar hefur verið unnin hefði ekki komið.
„Okkur var það ljóst að í byrjun var verkefnið nokkuð óljóst. Við þurftum að setja mikla vinnu í gang við að greina þau tækifæri sem voru til staðar og móta ákveðinn ramma um stefnuna okkar. Ég vil segja að í meginatriðum hafi það allt gengið eftir,“ segir Kjartan. Hann segir einnig að Ásbrú sé mikilvæg nú þegar mikil aukning er í ferðaþjónustu á svæðinu: „Ég held, ef við horfum til flugvallarins og mikillar aukningar í ferðaþjónustu, að við verðum að horfa til þess að samfélagið verði ekki einsleitt og hvaða aðra þætti við þurfum líka að leggja áherslu á til að byggja upp góða samfélagsblöndu og sterkt og gott samfélag til langs tíma litið. Ég held klárlega að þetta verkefni sem hér er og sú vinna sem er búin að vera hér á Ásbrú á undanförnum árum að hún eigi eftir að eiga stóran þátt í því að samfélagsblöndun á svæðinu verði með jákvæðum hætti.“
Tvær stórar krísur á Suðurnesjum
Kjartan segir þau næstum 10 ár sem liðin eru frá því Varnarliðið tilkynnti um fyrirhugað brotthvarf frá Keflavíkurflugvelli bæði langan og stuttan tíma. „Það hefur fjölmargt gerst og bæði mörg fyrirtæki og margir einstaklingar flutt inn á svæðið á þessum tíma. Það má heldur ekki gleyma því að á þessum tíma er svæðið að fara í gegnum tvær mjög stórar krísur. Annars vegar eina af stærstu efnahagskrísum svæðisins þegar Varnarliðið fer og hins vegar fjármálahrunið sem fylgdi í kjölfarið. Það hafa því aðeins verið nokkur ár þar sem uppbyggingin hefur verið með eðlilegum hætti í eðlilegu umhverfi. Það breytir því ekki að við höfum notað tímann vel, dregið fjölmörg fyrirtæki inn á svæðið og haldið með markvissum hætti í þá stefnu sem við sköpuðum í byrjun. Það hefur leitt til þess að nú þegar betur árar höfum við höfum náð að grípa boltann á lofti þar sem hann var þegar fjármálahrunið dettur yfir okkur“.
- Ef við horfum yfir þessi 10 ár. Hvað hefur helst gerst á þeim tíma?
„Til að byrja með hófst vinna við stefnu fyrir svæðið. Út frá þeirri stefnu hefur svo verið unnið. Það er alveg ljóst að það magn af eignum sem hér er hefði getað haft áhrif á annað sem er að gerast á svæðinu. Okkar markmið var að lágmarka neikvæð áhrif og hámarka þau jákvæðu. Þar með höfum við skilgreint ákveðnar greinar sem við höfum sótt markvisst á. Samgöngur, heilsu og tækni. Fyrsta verkefnið var stofnun Keilis sem hefur haft mikil áhrif, ekki bara á Ásbrú, heldur öll Suðurnes og landið í heild. Keilir var stofnaður með það í huga að hann þjónaði sömu sviðum og Kadeco myndi sækja á. Þannig rekur Keilir flugskóla, heilsuskóla og í samstarfi Háskóla Íslands útskrifar hann Tæknifræðinga með Bs. gáðu. Við horfum á að þar eru 2500 manns sem hafa útskrifast síðan Keilir byrjaði. Þar af eru um 1300 manns í Háskólabrú einni og langstærstur hluti þeirra heldur áfram í háskólanám. Við getum alveg farið í vangaveltur um það hvaða áhrif þetta muni hafa á samfélagið okkar hér á Suðurnesjum á næstu árum. Öll þekking er af hinu góða og fólk með meiri þekkingu ferðast áfram í lífinu og mun setja mark sitt á svæðið á næstu árum. Þetta er eitt. Síðan þau fyrirtæki sem við höfum markvisst verið að sækja á. Við höfum náð góðum árangri þar. Við erum að horfa á tækifæri í tengslum við fyrirtæki sem á einhvern hátt eru að horfa til flugvallarins með sína uppbyggingu. Þau þurfa ekki endilega að vera flutningaháð en vilja vera við flugvöllinn því það skapar virði í þeirra rekstri.
Fimm af sex gagnaverum landsins á Ásbrú
Eitt af þessu eru gagnaverin. Við erum með fimm af þeim sex gagnaverum sem staðsett eru hér á landi. Það er alveg ljóst að það verkefni datt ekki af himnum ofan. Það er markviss stefna og viðræður við þessa aðila sem hafa leitt til þess að þau eru hér og sjá virði í því að vera hér.
Ef við horfum á íbúafjöldann þá eru hérna 2000 manns sem búa hér á svæðinu, fólk sem á klárlega eftir að leggja til samfélagsins á næstu árum. Auðvitað er gegnumstreymi og stór hluti af því fólki sem hér býr eru nemendur sem eru í námi hjá Keili eða öðrum háskólastofnunum. Eða fólk sem er tímabundið að vinna hjá þeim fyrirtækjum sem hér eru. Það er líka fólk hérna sem mun festa hér rætur til langs tíma litið.
Síðan erum við með aðrar greinar eins og líftækniiðnaðinn. Við erum með flott líftæknifyrirtæki sem er í örum vexti hér á svæðinu og svona mætti lengi telja.“
Okkar verkefni að búa til nýja eftirspurn
Eitt af stóru áhyggjuefnunum á Suðurnesjum var hvernig þessi mikli fjöldi auðra íbúða myndi hafa áhrif á fasteignamarkaðinn þegar þær yrðu teknar í gagnið. Kjartan segir að þær áhyggjur hafi verið mjög skiljanlegar.
„Ég myndi segja að það hafi gengið ótrúlega vel. Ástandið á fasteignamarkaði á Suðurnesjum hafði verið verra en á mörgum öðrum svæðum á landinu í töluvert lengri tíma. Þess vegna litum við svo á að það væri okkar verkefni að búa til nýja eftirspurn eftir þessum eignum. Við gætum hverrgi getað farið í gengum það verkefni að svona stórt hlutfall af nýju húsnæði væri að koma inn á svæðið án þess að það hefði einhver áhrif á svæðið. Okkar verkefni var að lágmarka þau áhrif og ég held að það hafi gengið ótrúlega vel. Í tengslum við Keili er mikið af nýju fólki flutt inn á svæðið sem hefði ekki verið hér annars. Sama má segja um þau fyrirtæki og störf sem hafa verið sköpuð hér á undanförnum árum. Fólk sem býr hér er að miklu leiti í tengslum við þá viðbót sem hefur orðið hér á svæðinu og í tengslum við þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað“.
Á Ásbrú er tvennskonar íbúðarhúsnæði. Annars vegar fjölskylduhúsnæði og hins vegar einstaklingshúsnæði. Búið er í um 70% af því fjölskylduhúsnæði sem er til staðar, eða í um 700 íbúðaeiningum. Um 300 fjölskylduíbúðaeiningar eiga eftir að fara í nýtingu. Í einstaklingshúsnæðinu eru um 300 íbúðir nýttar en um 700 ónýttar.
„Á næstu tveimur árum teljum við að nær allt fjölskylduhúsnæðið komið í nýtingu og sama má segja með einstaklingshúsnæðið. Við sjáum nokkur ólík hlutverk fyrir það húsnæði. Eitthvað tengist uppbyggingu í ferðaþjónustu. Annað lítur að mönnun nýrra starfa við flugvöllinn. Þá sjáum við möguleika á að breyta hluta af einstaklingshúsnæðinu í skrifstofur, m.a. í tengslum við starfsemi á svæðinu og uppbyggingu flugvallarins.“
Nær allt iðnaðarhúsnæði í notkun
Kjartan segir að staðan á atvinnuhúsnæði sé þannig að nær allt iðnaðarhúsnæði á Ásbrú sé í nýtingu í dag og mikil eftirspurn hefur verið eftir því á undanförnum árum. Iðnaðarhúsnæði hefur m.a. verið nýtt fyrir sprotastarfsemi sem hafa verið að koma og allskyns ólíka starfsemi sem hefur komið inn á svæðið. „Svo eigum við eitthvað af þjónustuhúsnæði sem má nýta betur og á eftir að nýtast betur á næstu árum, meðal annars vegna nálægðar við Háaleitishlað. Með auknum umsvifum á svæðinu sjáum við nýtingu fyrir allt þetta húsnæði. Þetta mun fléttast saman við aukinn íbúafjölda og eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði.“
Ábatinn af sölu og leigu eigna hefur nær allur farið inn í hagkerfið hér á svæðinu. Kadeco eitt og sér hefur sett 7 milljarða króna í umbreytingu og viðhald á einum allra erfiðustu árum Suðurnesja í efnahagslegu tilliti. Sumir vildu í upphafi verkefnisins horfa til þess að rífa ætti eignirnar. Það er alveg ljóst að sú aðferðafræði sem varð ofan á hefur skilað margfalt meiri ábata til samfélagsins en ef sú leið hefði verið valin.
Fjölmargir hafa lífsviðurværi af verkefninu
Kjartan segir að alla tíð hafi verið góð tenging milli Þróunarfélagsins og sveitarfélaganna. Þróunin á Ásbrú hafi mikla þýðingu fyrir þau öll.
„Sveitarfélögin hafa frá fyrstu tíð átt sinn fulltrúa í stjórn og þannig er það ennþá í dag. Sveitarfélögin tóku þátt í stefnumótun félagsins á sínum tíma og meðal annars er nafnið Ásbrú komið frá fyrrverandi bæjarstjóra Sveitarfélagsins Garðs. Við höfum alltaf reynt að tengja sveitarfélögin við okkur með sem bestum hætti og starfað með þeim að mörgum verkefnum. Auðvitað er það þó þannig að okkur er falið að gæta ákveðinna hagsmuna í verkefninu og þeir fara ekki endilega alltaf saman við hagsmuni einstakra sveitarfélaga. Ég held að það hafi þó gengið ótrúlega vel að leysa þann litla ágreining sem hefur komið upp. Ég er alveg sannfærður um að það virði sem hefur verið búið til hér fyrir svæðið með þessu verkefni og þeirri leið sem var farin á sínum tíma, að nýta þessar eignir til að byggja upp á svæðinu og horfa á tækifæri til að auka menntunarstig og auka tækifæri fyrir menntað fólk til að starfa á svæðinu, á eftir að hafa áhrif á svæðinu sem fólk er ekki farið að sjá fyrir í dag. Þetta er rétt að byrja og margir eru rétt að átta sig á því sem raunverulega er að gerast og hverju sú mikla fjárfesting sem hér hefur átt sér stað er að skila. Það sér það í því að einhver sem það þekkir er að nema hjá Keili, er að starfa hjá einhverju af því fyrirtækjum sem eru hér í miklum fjárfestingum. Við erum að horfa á tugmilljarða fjárfestingar á undanförnum árum ef við tökum saman það sem við höfum eytt og þau fyrirtæki sem eru að byggja upp eins og Verne, Algalíf og fleiri. Verne gagnaverið hefur þegar og er að fjárfesta fyrir tugi milljarða. Það er önnur stærsta tæknifjárfesting á Norðurlöndunum, aðeins var fjárfest meira í Spotify. Fyrir utan aðrar fjárfestingar svo sem hjá Algalíf og öðrum fyrirtækjum sem skipta jafnframt milljörðum. Þetta eru beinar fjárfestingar. Þetta eru ekki allt peningar sem rúlla bara innan þessa svæðis, þetta eru peningar sem rúlla um öll Suðurnes og enda sem útsvar og launagreiðslur í öðrum póstnúmerum en hér. Það eru fjölmargir sem hafa haft sitt lífsviðurværi af verkefninu á undanförnum árum fyrir utan þann grundvöll og þau framtíðartækifæri sem verkefnið er að skapa með Keili og þeim nýju fyrirtækjum sem eru að koma hérna inn.“
Góður grundvöllur fyrir áframhaldandi þróun
- Þú sérð þessa þróun halda áfram?
„Alveg klárlega. Ég held að það sé kominn góður grundvöllur fyrir áframhaldandi þróun. Ég held líka, ef við horfum til flugvallarins og mikillar aukningar í ferðaþjónustu, að við verðum að horfa til þess að samfélagið verði ekki einsleitt og hvaða aðra þætti við þurfum líka að leggja áherslu á til að byggja upp góða samfélagsblöndu og sterkt og gott samfélag til langs tíma litið. Ég held klárlega að þetta verkefni og sú vinna sem er búin að vera hér á undanförnum árum eigi eftir að eiga stóran þátt í því að samfélagsblöndun á svæðinu verði með jákvæðum hætti.
Viðtal: Páll Ketilsson