Sjómaður hætt kominn þegar bátur hans brann
Betur fór en á horfðist snemma í morgun þegar sjómaður var hætt kominn þegar eldur kom upp í vélarúmi fiskibáts sem hann var á við veiðar tvær sjómílur norðaustur af Garðskaga.
Þar sem gaskútur var um borð, ákvað bátsverjinn að koma sér frá borði vegna sprengihættu. Hann fór í flotgalla og blés út björgunarbát, kom sér frá bátnum og hringdi þaðan í Stjórnstöð Gæslunnar til að tilkynna um málið.
„Ég hafði enga möguleika á að slökkva eldinn þar sem eldurinn var á milli mín og slökkvitækja. Ég varð því bara að nota allt til að bjarga mér. Ég er allur skakkur og skældur eftir þetta,“ sagði sjómaðurinn í spjalli við Bylgjuna í hádeginu.
Báturinn brann stafna á milli á örskotsstundu og sökk. Nálægir bátar komu að og var sjómaðurinn tekinn um borð í einn þeirra og fluttur í land. Ekki er vitað um eldsupptök