Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sjö þátttakendur útskrifast af Sóknarbraut af Suðurnesjum
Fimmtudagur 8. maí 2008 kl. 15:21

Sjö þátttakendur útskrifast af Sóknarbraut af Suðurnesjum

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Impra útskrifuðu í morgun hóp nemenda af Sóknarbraut á Suðurnesjum, fjórtán vikna námskeiði um stofnun og rekstur fyrirtækja. Námskeiðið var á vegun Atvinnuþróunarráðs SSS.
Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um rekstur fyrirtækja með áherslu á þróun hugmynda, markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Nemendur eru hvettir til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar. Á námstímanum vinna þátttakendur að ákveðnu verkefni sem byggir á þeirra eigin viðskiptahugmynd.

Nemendurnir sem útskrifuðust í morgun kynntu viðskiptahugmyndir og rekstraráætlanir sínar á sérstökum kynningarfundi áður en að útskriftinni kom. Alls var um 6 verkefni að ræða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Arnbjörn Barbato kynnti nýstárlegan netmiðli. Hlutverk hans er að starfa sem umboðsmiðill fyrir tónlistarmenn og hugsanlega viðskiptavini þeirra. Þá er netmiðlinum ætlað að vera samstarfsvettvangur tónlistarmanna sem nota hann.

Sigurður Kristmundsson kynnti Öxul, afl í verslun og þjónustu í Grindavík. Því fyrirtæki verður m.a. ætlað að reka byggingavöruverslun þar í bæ.

Ingólfur Karlsson og Helena Guðjónsdóttir, eigendur Langbest kynntu viðskiptahugmynd sína um nýjan veitingastað á Vallarheiði, Langbest 2, sem opnar á næstunni. Um blandaðan stað er að ræða sem býður upp á pizzur, grill, hlaðborð auk þess að vera kaffihús. Þau Ingólfur og Helena segja mörg sóknarfæri felast í staðsetningunni á Vallarheiði.

Erlingur Jónsson, forsvarsmaður Lundar, kynnti framtíðarhugmyndir sínar um forvarnarstarfið en Lundur fær innan tíðar inni í rúmbetra húsnæði. Bætt aðstaða mun hafa í för með sér meira svigrúm í starfinu hvað varðar fræðslufundi og fyrirlestra, þegar búið verður að afla búnaðar í húsnæðið.

Sigurpáll Jóhannsson í Grindavík kynnti stofnun fyrirtækis um hugbúnaðargerð. Sigurpáll er kerfisfræðingur með 10 ára starfsreynslu. Helstu áherslur fyrirtækisins verða í þróun upplýsingakerfa fyrir fasteignafélög og ferðaþjónustuaðila t.d. með þróun upplýsingavefs um menningartengda ferðaþjónustu.

Að lokum kynnti Jónina Olsen viðskiptahugmynd sína um blómaskreytingastofu en Jónína menntaði sig hjá einum virtasta skóla Evrópu á þessu sviði. Jónína sagði sóknarfæri sín helst felast í sérhæfni.

Í lokin var besta viðskiptahugmyndin verðlaunuð og kom það í hlut Ingólfs og Helenu að taka á móti þeirri viðurkenningu.

Þetta er fyrsta Sóknarbrautarnámskeiðið sem haldið er á Suðurnesjum. Að sögn Birnu Jakobsdóttur, verkefnastjóra hjá MSS er ekki annað að heyra en að námskeiðið hafi tekist vel og er stefnt að fleiri slíkum áður en langt um líður.


VF-mynd/elg: Útskriftarhópurinn í morgun, t.v. Helena Guðjónsdóttir, Ingólfur Karlsson, Erlingur Jónsson, Sigurður Kristmundsson, Jónína Olsen, Sigurpáll Jóhannsson og Arnbjörn Barbata.