Sjö og hálf milljón í styrki til fræðslumála á Suðurnesjum
- átta verkefni á Suðurnesjum fengu styrk
Nýlega var tilkynnt hvaða verkefni fengu styrk úr Sprotasjóði og Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Átta verkefni á Suðurnesjum fengu styrk að þessu sinni. Þrír grunnskólar fengu styrk úr Sprotasjóði og þrír fengu styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Auk þess fékk fræðslusvið Reykjanesbæjar styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Hæstu styrkirnir fóru til Fræðslusviðs Reykjanesbæjar, Grunnskóla Grindavíkur, Grunnskólans í Sandgerði og Stóru-Vogaskóla. Styrkirnir koma allir til greiðslu á næsta skólaári.
Nemendur 21. aldarinnar: Hvenær er maður læs?
Fræðslusvið Reykjanesbæjar fékk kr. 1.620.000 styrk fyrir verkefnið „Nemendur 21. aldarinnar: Hvenær er maður læs“ Verkefnið samanstendur af stuttum og lengri námskeiðum sem tengjast beint þörfum skólanna í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði. Verkefnið er í raun tvíþætt. Annars vegar er um að ræða námstefnu sem haldin er fyrir skólabyrjun eða 10. og 11. ágúst nk. og hins vegar er um að ræða röð námskeiða og fræðsluerinda sem haldin eru jafnt og þétt yfir skólaárið 2017-2018. Megin áherslur fræðslusviðs á næsta ári í sambandi við endurmenntun verða tengdar grunnþáttunum læsi og jafnrétti en ýmsum öðrum þáttum í skólastarfinu verður einnig gerð góð skil í fjölbreyttu framboði af námskeiðum.
Lestrarkennsla, leiðsagnarmat og uppbyggingastefna
Akurskóli fékk styrk til tveggja verkefna upp á samtals kr. 450.000. Annað verkefnið er til að efla læsi til skilnings sem verður unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Hitt verkefnið er til að innleiða uppbyggingarstefnuna Uppeldi til ábyrgðar.
Heiðarskóli fékk kr. 450.000 í styrk í verkefnið „Leiðsagnarmat er lykill” og er til að vinna áfram að leiðsagnarmati í skólanum. Markmið verkefnisins er að leggja áherslu á leiðsagnarmat í anda aðalnámskrár þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum til að nálgast eigin markmið í námi og ákveða hvert skuli stefna.
Holtaskóli fékk styrk upp á kr. 200.000 í verkefni sem ætlað er að styrkja lestrarkennslu við skólann en frekar. Skólinn ætlar að einbeita sér að þeim nemendum sem þurfa eftirfylgni að halda varðandi lestur.
Móðurmál í stafrænum heimi – eitt eða annað má
Grunnskólinn í Sandgerði fékk kr. 1.500.000 í styrk. Heiti verkefnisins er: „Móðurmál í stafrænum heimi – eitt eða annað mál“. Markmið verkefnis er að vinna með móðurmál og læsi í stafrænum heimi með smáforritum og snjalltækjum (spjaldtölvu/snjallsíma). Þetta muni auka möguleika á því að vinna með og læra tungumál. Sett verður upp umhverfi í skólanum sem örvar og hvetur nemendur til að nýta sér snjalltæki og smáforrit tengd orðum, hugtökum, bók- og tölustöfum, ritmáli, samræðu, hlustun, lestur og tjáningu/miðlun í tungumálanámi
Efla náttúrufræðikennslu
Grunnskóli Grindavíkur fékk kr. 1.500.000 styrk til að efla náttúrufræðikennslu en markmiðið er að þróa bæði kennslu og námsefni í samstarfi við Reykjanes Geopark, sjávarútveg og önnur fyrirtæki í nærumhverfinu með von um að það verði til að auka og dýpka skilning nemenda, áhuga og hæfni á vísindum sem nýtast þeim í daglegu lífi og til framtíðar.
Nemenda af erlendum uppruna fá aukna aðstoð
Stóru-Vogaskóli fékk styrk upp á kr. 1.300.000 til að bjóða tvítyngdum nemendum upp á kennslu í sínu móðurmáli. Kennslan fer fram að loknum skóladegi og er viðbót við þeirra skóladag og er foreldrum að kostnaðarlausu. Einnig á að bjóða upp á heimanámsaðstoð fyrir nemendur af erlendum uppruna