Sjö í fíkniefnaakstri
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið sjö ökumenn sem óku undir áhrifum fíkniefna. Þrír af þeim voru handteknir í gær. Þeirra á meðal var kona um tvítugt, sem var með farþega í bíl sínum. Hann játaði að eiga kannabispakkningu sem lögregla fann í bílnum. Þá liggur fyrir rökstuddur grunur þess efnis að annar ökumaður í hópi þessara þriggja hafi ekið á bifreið við vínbúðina í Reykjanesbæ skömmu áður en hann var handtekinn.
Af hinum ökumönnunum fjórum er það að segja, að einn þeirra ók sviptur ökuréttindum, auk þess að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar reyndist hafa neytt kannabis, kókaíns og amfetamíns. Þriðji ökumaðurinn var ökuréttindalaus og bifreiðin sem hann ók ótryggð. Skráningarnúmer voru því klippt af henni.