Sjö banaslys frá aldamótum
- Umferðarslysum á Suðurnesjum fækkaði árið 2014
Sjö banaslys hafa orðið í umferðinni í Reykjanesbæ frá árinu 2000, samkvæmt tölum frá Samgöngustofu. Þá hafa 54 slasast alvarlega frá árinu 2000 til 2014 og 584 slasast lítið. Á fimmtudag í síðustu viku varð banaslys á gatnamótum Njarðarbrautar og Tjarnarbrautar í Reykjanesbæ. Þá lentu tveir bílar saman og lést ökumaður annars bílsins. Slæmt veður var á slysstað, rigning, myrkur og talsverður vindur. Tildrög slyssins eru til rannsóknar.
Í Umferðar- og öryggisáætlun Reykjanesbæjar fyrir tímabilið 2012 til 2017 kemur fram að á árunum 2006 til 2010 hafi Suðurnesjamenn lent í flestum slysum miðað við íbúafjölda. Þess ber að geta að síðan þá hafa ýmsar breytingar verið gerðar, til að mynda á gatnamótum Grænás og Reykjanesbrautar þar sem slys voru tíð. Nú er þar hringtorg.
Á tímabilinu 2006 til 2010 voru 6,5 umferðarslys á hverja 1000 íbúa á Suðurnesjum á ári og voru umferðarslysin hér þau tíðustu á landinu, miðað við íbúafjölda. Sunnlendingar voru næstir með 4,8 slys á hverja 1000 íbúa. Á tímabilinu voru að meðaltali 4 sem lentu í slysum á hverja 1000 íbúa í öðrum landshlutum. Árið 2010 hafði hlutfallið á Suðurnesjum lækkað í 5,2 íbúa á hverja 1000.
Í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi árið 2014 kemur fram að á árinu 2014 hafi slysum á Suðurnesjum fækkað miðað við árin á undan. 2014 urðu flest slys miðað við höfðatölu á Akureyri.
Sjö hafa látist í sex slysum í Reykjanesbæ síðan árið 2003.