Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjávarútvegur stórefldur eftir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík
Vinnsla hjá Vísi hf. í Grindavík. Mynd úr safni Víkurfrétta
Sunnudagur 10. júlí 2022 kl. 21:04

Sjávarútvegur stórefldur eftir kaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík

Samkomulag hefur náðst um að Síldarvinnslan hf. kaupi allt hlutafé í Vísi hf. í Grindavík sem verður greitt með hlutabréfum í Síldarvinnslunni hf. Með viðskiptunum verður Vísisfjölskyldan meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni hf. og stefnt er að því að stórefla sjávarútveg á svæðinu. Kaupverð hlutafjár er 20 milljarðar króna, vaxtaberandi skuldir um 11 milljarðar og samtals nema því viðskiptin um 31 milljarði króna. Í kjölfar viðskiptanna verða höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar hf. hjá Vísi hf. í Grindavík og Pétur Hafsteinn Pálsson verður áfram framkvæmdastjóri Vísis. Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitsins.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., segir: „Við hjá Vísi sjáum mikil tækifæri í þessum viðskiptum fyrir Grindavík og Reykjanes í heild og erum þess fullviss að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík eru réttar og munu standast tímans tönn. Við höfum alltaf verið og erum afar stolt af starfsfólki Vísis sem fær með þessu frekari tækifæri til þess að takast á við enn öflugri atvinnusköpun í Grindavík. Þessi atriði gera þessa stóru ákvörðun okkar léttari.“

Styrkari stoðir og tækifæri til framtíðar

Seljendur og kaupendur eru sammála um að með þessum viðskiptum sé verið að styrkja stöðu beggja félaga til framtíðar og Vísir hf. verður rekið sem dótturfélag og mun starfsemin í Grindavík verða öflugri og ýta undir samkeppnishæfni og sjálfbærni til lengri tíma í sátt við umhverfið. Þá mun alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf félaganna eflast. Vísir hf. er rótgróið fjölskyldufyrirtæki í sjávarútvegi og starfsfólk og stjórnendur félagsins búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á bolfiskvinnslu. þar sem áhersla er lögð á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Á fiskveiðiárinu 2022–2023 eru væntar aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn. Ársverk á síðasta ári voru um 250. Ársveltan var rúmlega 10 milljarðar króna og hagnaður ársins liðlega 800 milljónir króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Síldarvinnslan hf. er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og er helsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi. Félagið er skráð í Kauphöll Íslands og eru hluthafar hátt í fimm þúsund talsins. Á síðasta ári voru ársverk samtals um 360. Á fiskveiðiárinu 2022-2023 eru væntar aflaheimildir samstæðunnar liðlega 36 þúsund þorskígildistonn. Ársveltan 2021 var rúmlega 30 milljarðar króna og hagnaður um 11 milljarðar króna.

Síldarvinnslan hf., líkt og Vísir hf., leggur áherslu á hagkvæma og sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, þar sem leitast er við að nota nýjustu tækni sem völ er á til veiða og vinnslu í sátt við umhverfið. Með kaupunum mun Síldarvinnslan hf. styrkja bolfiskhluta félagsins verulega.

Uppbygging í sjávarútvegi á svæðinu

Aðspurður segir Pétur að „það er ekki bara bolfiskvinnslan sem mun aukast, fiskeldi hafi stóreflst á Íslandi undanfarin ár og allar spár sýna að framtíðin liggi í auknu fiskeldi. Á komandi árum er fyrirhuguð mikil uppbygging fiskeldis á landi á svæðinu og munu þau áform skapa margvísleg tækifæri í rekstri fyrirtækisins í Grindavík. Þar mun sameinuð þekking og reynsla nýtast afar vel til þess að sækja fram og skapa ný störf í samfélaginu. Þá munu viðskiptin styðja enn frekar við hraðari uppbyggingu tækni-og iðnfyrirtækja í Grindavík, sem þjónusta veiðar, vinnslu og eldi“. 

Þá bendir Pétur einnig á að „nauðsynlegt sé að innviðir byggist hratt upp svo hægt sé að þjónusta sívaxandi sjávarútveg á svæðinu, þar með talið hafnarmannvirki. Þar þurfi að bregðast hratt við svo Grindavík geti leikið þar lykilhlutverk fyrir Suðurland“.