Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjávarplássin standa sterk að vígi
Sunnudagur 24. janúar 2010 kl. 10:00

Sjávarplássin standa sterk að vígi


Atvinnuleysi í Grindavík mælist nú um 6% á meðan landsmeðaltalið í desember síðastliðnum var 8,2%. Til samanburðar má geta þess að í nágrannasveitarfélaginu Reykjanesbæ hefur atvinnuleysið verið um 11-12% eftir Hrun. Á Suðurnesjum var tæplega 14% atvinnuleysi í desember síðastliðnum. Ljóst að er að sjávarútvegspláss eins og Grindavík stendur sterkt að vígi í atvinnulegu tilliti við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. En Grindvíkingar horfa einnig til annarra atvinnutækifæra.

„Meðan ekki verða stóráföll í sjávarútveginum stendur útgerðarbær eins og Grindavík sterkur að vígi í því árferði sem nú ríkir. Hrunið hefur í rauninni ekki haft teljandi áhrif á grundvallar undirstöðuna sem sjávarútvegurinn er, heldur styrkt hann fremur en að veikja m.a. vegna gengismunar,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík.

Í landi Grindavíkur var fyrir nokkrum árum skipulagt iðnaðarsvæði þar sem fyrirhugað var að koma upp léttum iðnaði sem skapaði fleiri atvinnutækifæri í bæjarfélaginu. Þegar til kastanna kom taldi Hitaveita Suðurnesja sig ekki geta útvegað næga orku inn á svæðið, aðallega vegna álvers í Helguvík. Eftir nokkurt samningaþref er málið komið í þann farveg að Grindavík fær forgang að ákveðinni orku inn á svæðið umfram álverið.
„Í raun og veru var búið að afhenda álverinu í Helguvík meira eða minna alla orku hér af svæðinu næstu árin. Nú er verið að semja um það við Norðurál að ákveðinn hluti orkunnar fara til heimabrúks hér á svæðinu,“ segir Ólafur Örn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Hann segir alltaf eitthvað um að menn „banki uppá” með hugmyndir að nýjum atvinnutækifærum. Nú sé verið að skoða spennandi tækifæri en það er unnið sem trúnaðarmál og því ekki hægt að upplýsa um það enn sem komið er.
„Við höfum beint sjónum okkar að umhverfisvænni iðnaði en erum ekki að leita eftir mengandi stóriðju eins og álveri. Við höfum viljað vera í góðu samstarfi við Bláa lónið sem er heimsþekkt heilsulind með góða umhverfisímynd og við höfum viljað styðja við með öllum ráðum. Þess vegna vorum við mjög hrifnir af því að fá Orf-Líftækni hingað til okkar en þeirri starfsemi fylgir engin mengun og er í góðri sátt við það sem er á svæðinu. Þessa nálgun vildum við gjarnan hafa á iðnaðarsvæðum okkar og efla ímynd Grindavíkur með heilsusamlegu og grænu svæði þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi,“ segir Ólafur.