Sjálfstraust og silfurdrengir hjá Keili
Hjálmar Árnason hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Hjálmar er elsti starfsmaður Keilis og má segja að hann hafi verið hjá Keili frá degi tvö, því Runólfur Ágústsson, sem áður var framkvæmdastjóri Keilis, var ráðinn á degi eitt. Hjálmar sagði framkvæmdastjórastöðuna ekki þýða mikla breytingu fyrir sig. Hann hafi verið staðgengill Runólfs og hjá Keili sé mikil hópvinna og fólk þar starfi í opnu rými sem ein heild og formlegheit í titlum sé ekki mikil. Það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtæki sem þurfi að vera framsækið og sveigjanlegt.
- Hvar stendur Keilir í dag?
„Keilir hefur náð á rúmum tveimur árum þeim markmiðum sem voru sett í fimm ára áætlun. Það á bæði við um íbúafjölda á Ásbrú og eins um fjölda nemenda hjá Keili. Til að setja Keili í samanburð við aðrar menntastofnanir þá má segja að Keilir sé á stærð við tvo litla menntaskóla hvað nemendafjölda varðar. Um 500 nemendur eru við Keili en sá fjöldi nemenda átti að nást á fimm árum í upphaflegum markmiðum.
Sérstaða Keilis er sú að hann er skóli bæði á framhaldsskóla og háskólastigi. Keilir var hugsaður sem brúin á milli skólastiga og jafnframt sem tenging við atvinnulífið og það leggjum við mikla áherslu á. Við höfum frá fyrstu stigum horft á götin í skólakerfinu og reynt að stoppa í þau. Okkar tilfinning er sú að þar séum við að hitta vel í mark og það sem hefur sérstaklega blómstrað er háskólabrúin. Þar erum við greinilega að svara mikilli þörf í samfélaginu. Meðalaldur nemenda á háskólabrú er um 30 ár. Þarna erum við að opna fólki nýja möguleika og þetta fólk er einn skemmtilegasti námshópur sem ég hef kynnst“.
- Hvaða fólk er á háskólabrúnni?
„Til að komast á háskólabrú þarf fólk að hafa lokið um 70 einingum í framhaldsskóla. Það eru allir teknir í persónulegt viðtal til að reyna að meta hvort við treystum fólki til að fara í þetta nám. Með háskólabrúnni hjálpum við fólki að ljúka framhaldsskólanáminu á einu ári með mjög stífu námi,“ sagði Hjálmar.
Byggja upp sjálfstraust
Mikil áhersla er lögð á að byggja upp sjálfstraust hjá Keili því nám er fyrst og fremst sjálfstraust og að hafa trú á sjálfum sér. Mikil áhersla er lögð á gott samstarf við Háskóla Íslands, sem er stærsti eigandi Keilis og fyrir vikið er námið í Keili viðurkennt í öllum háskólum á Íslandi og erlendis.
Um síðustu áramót sóttu mjög margir nemendur um skólavist hjá Keili sem ekki uppfylltu þær kröfur sem eru gerðar fyrir háskólabrú. Keilir brást við þessu með því að setja upp svokallaðar háskólastoðir í samvinnu við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þeir sem byrjuðu þar um áramót luku því námi í sumar og hófu síðan námið á háskólabrúnni nú í haust. Hjálmar sagði þetta mælast afar vel fyrir og nú séu símenntunarmiðstöðvar um allt land að taka þetta fyrirkomulag upp.
Silfurdrengirnir í námi við Keili
Keilir starfar í fjórum stoðum, þ.e. háskólabrú, flugakademíu, orkuskóla með tæknifræðinám á BSgráðu og þá er Keilir að slá um sig í heilsuskólanum með ÍAK einkaþjálfun. Heilsuskólanámið hjá Keili hefur getið sér það gott orð að „silfurdrengirnir“, handboltalandsliðið af síðustu Ólympíuleikum, eru flestir skráðir í nám við skólann. Bóklega námið taka þeir í gegnum fjarnám, enda flestir atvinnumenn í handknattleik í Þýskalandi. Þegar þeir síðan koma heim til Íslands til æfinga og keppni, er sett upp verklegt nám fyrir þá.
Keilir er nú að fara af stað með nám í samstarfi við þrjár deildir Háskóla Íslands í fíknifræðslu og forvörnum. Þar verða menntaðir ráðgjafar í forvörnum og hinum ýmsu fíknafræðum. Þetta nám er ekki til í skólakerfinu í dag.
Þá er Keilir að feta sig inn á námskeiðahald ýmiskonar. Þannig voru á dögunum hátt í 100 manns á námskeiði hjá kunnu þolþjálfunargúrúi frá Bandaríkjunum. Á sama tíma voru 20 prestar á námskeiði sem Keilir skipulagði. Hjálmar segir mikinn mannauð vera í Keili, enda hafi skólinn um 70 kennara á sínum vegum með mikla þekkingu.
Áhugasamur menntamálaráherra
Menntamálaráðherra heimsótti Keili á dögunum og sýndi starfseminni mjög mikinn áhuga og spurði mikið, enda Keilir að marka spor í þróun á íslensku menntakerfi. Það vekur hins vegar athygli að Keilir er ekki til sem liður á fjárlögum. Keilir heyrir undir aflasamdrátt á Vestfjörðum og Suðurnesjum. Hjálmar sagði að Keilir finni fyrir miklum og góðum stuðningi allra þingmanna kjördæmisins. Það sé þverpólitísk sátt um Keili og þingmenn snúa bökum saman til þess að bjarga því slysi að Keilir falli út af fjárlögum.
Það er óhætt að segja að mannlífið blómstri á Ásbrú núna þremur árum eftir að Varnarliðið fór. Hjálmar vill í dag meina að það sé eitt mesta gæfuspor sem stigið hafi verið á Suðurnesjum. Sú aðstaða sem sé í þessari fyrrverandi herstöð er í dag grunnur að mjög öflugu þekkingarþorpi sem fólk leitar til. Hjálmar segir að hvergi á landinu sé eins mikil gerjun og í atvinnulífinu á Suðurnesjum og það byggir á því að menn snúi bökum saman en séu ekki að pexa heldur vilji ná árangri.