Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í Suðurkjördæmi
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgis í Suðurkjördæmi, samkvæmt nýrri könnun Capacent-Gallup, Samfylkingin kemur næst og Vinstri-græn eru í þriðja sæti. Frá þessu er greint á ruv.is en könnunin er gerð fyrir Ríkisútvarpið.
Sjálfstæðisflokkurinn fær 27,7% fylgi í Suðurkjördæmi, tapar 8.3 prósentustigum og einum þingmanni, fengi núna þrjá. Samfylkingin fær 27,2%, bætir við sig 0,4 prósentustigum frá kosningunum. Það nægir til að flokkurinn fengi þrjá kjördæmakjörna menn í stað tveggja. Vinstri græn bæta langmestu við fylgi sitt, flokkurinn fékk 9.9% í kosningunum, en fær stuðning 23,7% í könnuninni; bætir því við sig 13,8 prósentustigum og fengi tvo menn kjörna í stað eins. Framsóknarflokkurinn tapar 4,4 prósentustigum og mælist með 14,3% og tapaði öðrum tveggja sem flokkurinn fékk í kosningunum. Önnur framboð kæmu ekki manni að. Frjálslyndi flokkurinn fær 3.7% , en hafði 7%. Borgarahreyfingin fær 2.5% og Lýðræðisfylkingin 0.9%.
Skiptin jöfnunarsæta er ekki skoðuð, en síðastur inn er 3. maður Samfylkingar og næstur inn væri þriðji maður Vinstri-grænna. Könnunin var gerð 16. til 19. apríl, úrtakið var 800 manns og svarhlutfall 61%.
Heimild: www.ruv.is