Sjálfstæðisflokkur gerir athugasemd við markaðsstefnu
„Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt að þrjár megin stoðir í markaðsstefnu sveitarfélagsins eigi að vera skapandi greinar, nýsköpun og náttúran. Endurskoða þurfi stoðirnar þrjár sem nefndar eru og teljum við ótækt að íþróttir séu ekki ein af þeim stoðum sem byggja skal á en eru klárlega samofnar sögu og áherslum sveitarfélagsins,“ segir í bókun sjálfstæðismanna á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar 7. júní.
Drög að nýrri markaðsstefnu sveitarfélagsins var lögð fram á bæjarráðsfundi 25. maí. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að ekki sé hægt að samþykkja skjal um markaðsstefnu þar sem einungis sé um að ræða grunnvinnu og greiningu sem nýta má við mótun markaðsstefnu. Skortur sé á innsýn í sögu Reykjanesbæjar og það samfélag sem byggt er á.
Undir bókunina skrifuðu bæjarfulltrúarnir Margrét A. Sanders, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Guðbergur Reynisson.