Sjálfbært og aðlaðandi samfélag í Suðurnesjabæ
Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar á dögunum var lögð fram tillaga frá sviðsstjóra skipulags- og umhverfismála um að verkefnastjórn aðalskipulags Suðurnesjabæjar verði í höndum skipulagsfulltrúa, bæjarstjóra og hjá formanni framkvæmda- og skipulagsráðs. Framkvæmdar- og skipulagsráð komi síðan með beinum hætti að aðalskipulagsvinnunni og fjalli um málefni skipulagsins eftir því sem tilefni er til.
Í afgreiðslu bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar frá síðasta fundi segir:
„Vinna ráðgjafa við skipulags- og matslýsingu er hafin og voru drög að uppbyggingu kynnt á 23. fundi framkvæmda- og skipulagsráðs. Í lýsingunni er gerð grein fyrir skipulagsferlinu og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni, svo sem kynningu og samráði. Í tengslum við gerð lýsingar eru skipulagsforsendur og umhverfisaðstæður metnar. Greind eru tengsl aðalskipulagsins við aðrar áætlanir, svo sem landsskipulagsstefnu, svæðisskipulag Suðurnesja og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Samþykkt samhljóða að sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs, bæjarstjóri og formaður framkvæmda- og skipulagsráðs skipi verkefnastjórn vegna aðalskipulags.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að unnið verði með yfirskriftir/málaflokka úr vinnu samráðsvettvangs um innleiðingu heimsmarkmiðanna en þau eru: Blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf, sjálfbært og aðlaðandi samfélag, traustir og hagkvæmir innviðir og vel menntað og heilbrigt samfélag.
Jafnframt samþykkt að unnið verði út frá áherslum sem komu fram í umræðum á fundi bæjarstjórnar.“