Sívaxandi vinsældir hjálma
Reggíbandið hjálmar hefur svo sannarlega slegið á rétta strengi hjá íslensku þjóðinni því að nú er svo komið að færri komast að en vilja á tónleika þeirra.
Diskurinn þeirra, Hljóðlega af stað, hefur selst grimmt og segir Guðmundur Kristinn Jónsson, eða Kiddi eins og hann er jafnan kallaður, að ótrúleg ásókn hafi verið á tónleika þeirra. „Við spiluðum á Stúdentakjallaranum síðasta föstudag, en staðurinn tekur bara um 100 manns. Um hálf tíu var komin löng röð fyrir utan og um það leyti þegar við byrjuðum að spila voru fleiri fyrir utan en innan."
Þá hefur varla farið framhjá neinum aðdáenda hljómsveitarinnar að hún vann tvenn verðlaun á Íslensku Tónlistarverðlaununum, fyrir bestu rokkplötuna og sem bjartasta vonin. „Það er nú svolítið skrítið," segir Kiddi. „Því við erum að verða 30 ára og erum reggíband. Þetta er samt ágætt fyrir okkur og hjálpar til við að auglýsa okkur."
Næst á dagskrá hjá hjálmum er gigg á NASA á föstudaginn. Þar munu hjálmar troða upp ásamt nokkrum góðum gestum, m.a. meðlimum úr Jagúar og Gísli Galdur verður á slagverki. Á laugardagskvöld verða hjálmarnir svo á Grand Rokk ásamt KK þannig að nóg er að gera hjá þeim félögum á næstunni.