Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 6. febrúar 2001 kl. 10:10

Silungur ehf. heldur starfsleyfinu: Slátrun lýkur fljótlega eftir mánaðamótin

Þess hefur verið krafist af forsvarsmönnum Haffjarðarár, að eldisleyfi Silungs ehf. verði afturkallað þegar í stað en fyrirtækið hefur verið með sjókvíaeldi í Helguvíkurhöfn síðan sl. haust. Eftirlitsnefnd með sjókvíaeldi hefur ályktað að starfsemi Silungs sé innan þess ramma sem fyrirtækinu var settur og leyfið verður því ekki afturkallað.


Silungur fékk starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi frá Hollustuvernd ríkisins og leyfi frá Landbúnaðarráðuneytinu til að halda norskan lax fram að áramótum og átti eldinu að vera lokið þá. Starfsmenn silungs segja eldinu vera lokið en þeir eru enn að slátra úr kvíunum.
„Það er rangt að við séum með lax í eldi um þessar mundir. Fiskurinn er í sláturferli og ég reikna með því að slátrun verði lokið nú fljótlega eftir mánaðamótin, sagði Jónatan Þórðarson, framkvæmdastjóri Silungs ehf., í samtali við InterSeafood.com.

Vill láta afturkalla leyfið
Óttar Yngvason hæstaréttarlögmaður, gerði nýlega alvarlegar athugasemdir, fyrir hönd eigenda Haffjarðarár, við staðsetningu fiskeldisstöðvar Silungs ehf. við Vogastapa í Vogum og sömuleiðis það að eigendur stöðvarinnar hafa flutt þrjár af sex flotkvíum stöðvarinnar í Helguvíkurhöfn. Hann krafðist þess að starfsleyfi stöðvarinnar yrði afturkallað þegar í stað.
Í bréfi sem Óttar sendi Sigurði Guðjónssyni formanni eftirlitsnefndst með sjókvíaeldi Silungs ehf. segir m.a.:
,,Að undanförnu hafa þrjár kvíar af sex verið staðsettar í Helguvíkurhöfn en ekki undir Vogastapa. Ekki verður séð af leyfisbréfi Silungs ehf. að heimild sé til þessa flutnings eldisstöðvarinnar inn í stærstu olíuhöfn landsins. Þá er yfirvofandi stórkostlegt mengunarslys vegna stroklaxa, verði hið minnsta óhapp við kvíarnar, enda eru þær staðsettar á siglingarleið skipa inn í höfnina, ómerktar og án aðvörunarljósa. Loks er ekki úr vegi að athuga að þetta matfiskeldi er nú komið í næsta nágrenni aðalholræsa Keflavíkur og nágrennis.”
Í bréfi sínu segir Óttar ennfremur að sjókvíaeldið sé óheimilt á tímabilinu frá 1. janúar til 31. mars sbr. lokaákvæði leyfisbréfs frá 28. apríl í fyrra. Í kvíunum þremur sé væntanlega ennþá helmingur þess norska laxs, sem lagt var upp með frá Vogunum, eða jafnvel 60 til 70 þúsund fiskar. Óttar bendir á að þetta sé meira en tvöfaldur sá fjöldi sem veiddist í öllum ám landsins á sl. ári. Nú fari í hönd sá tími að óðum styttist í venjulegan göngutíma villtra laxa og það sé skilyrðislaus krafa að kvíarnar verði tæmdar nú þegar. Þar sem rekstraraðili hafi margbrotið skilmála leyfisbréfsins er þess jafnframt krafist að leyfi til rekstursins verði afturkallað þegar í stað.

Slátrun lýkur fljótlega
Jónatan segir ásakanir Óttars í bréfinu ekki eiga við rök að styðjast. „Það er rétt að bannað er að ala fiskinn undir Vogastapa yfir vetrarmánuðina og við það höfum við staðið. Við tilkynntum nefndinni hvernig staðið yrði að slátrun fisksins og þetta sláturferli stendur nú yfir. Það lá ljóst fyrir að það gæti tekið sex til sjö vikur frá áramótum að ljúka slátruninni og við höfum ekki fóðrað laxinn svo nokkru nemur á þessum tíma. Þá er það líka rangt að það séu 60 til 70 þúsund laxar í kvíunum. Þeir eru um 10 til 12 þúsund talsins og ég á von á því að slátrun þeirra ljúki nú fljótlega eftir mánaðamótin, segir Jónatan Þórðarson.

Ólyktin ekki frá laxeldinu
Að sögn Stefáns Einarssonar, verkefnastjóra hjá Hollustuvernd, snýst þessi deila fyrst og fremst um ákveðið túlkunaratriði, þ.e. hvenær er bara verið að ala lax og hvenær verið er að slátra. „Þeir slátruðu úr fyrstu kvínni í október. Kvíarnar eru dregnar inn í Helguvíkurhöfn og slátrunin fer fram í húsnæði loðnuvinnslunnar sem staðsett er á bryggunni. Tíð hefur verið risjótt og þá tafðist allt saman því ekki er hægt að draga kvínnar inn í vondum veðrum“, segir Stefán.
Töluvert magn af dauðum fiski flaut upp á yfirborðið fyrir skömmu og það var til þess að nokkrar mótmælaraddir heyrðust. „Þeir voru að hreinsa dauðan fisk upp úr kví en náðu honum ekki upp úr kvínni og misstu hann í höfnina. Ástæðan fyrir því að fiskurinn flaut upp er sú að skrúfan á olíuskipi sem var að snúa í höfninni, fór í botninn og rótaði upp alls konar drullu. Mikil ólykt gaus upp og hræ flutu upp á yfirborðið. Ólyktin sem kom stafar sennilega af gömlu seti og kom trúlega ekki frá laxeldinu“, segir Stefán.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024