Silja vill breyta lögum um brottnám líffæra
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, sem þingmaðurinn Silja Dögg Gunnarsdóttir var fyrsti flutningsmaður að, var lagt fyrir Alþingi í gær. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, sem laut að ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf þegar um er að ræða látinn einstakling.
Í frumvarpinu segir m.a. að heimilt er að nema brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látinna einstaklinga. Samþykki einstaklingur ekki að líffæri eða vefir úr líkama hans verði numin brott að honum látnum, til nota við læknismeðferð annars einstaklings, skal hann koma þeirri afstöðu sinni á framfæri við nánasta aðstandanda eða skrá á annan hátt sem tryggt þykir að muni koma fram við andlát hans.
Markmið með frumvarpinu er að auðvelda líffæragjafir látinna einstaklinga. Þá kemur einng fram að fram að fyrir gildistöku laganna, sem yrði 1. janúar 2015 nái breytingin í gegnum Alþingi, skuli velferðarráðuneyti sjá um að kynna efni þeirra fyrir landsmönnum.
Tvívegis hafa verið fluttar tillögur til þingsályktunar um sama efni sem urðu ekki útræddar. Annars vegar var lögð fram á 141. löggjafarþingi tillaga til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir (28. mál) og hins vegar var á 140. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um ætlað samþykki við líffæragjafir (476. mál).
Frumvarpinu hefur verið vísað til meðferðar velferðarnefndar Alþingis.