Silja Dögg orðuð við ráðherrastól
Silja Dögg Gunnarsdóttir, Njarðvíkingur og þingmaður Framsóknarflokksins úr Suðurkjördæmi, þykir koma nokkuð sterklega til greina sem nýr ráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fram kom í viðtali Sigurjóns Egilssonar við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Sprengisandi á Bylgjunni í gær, að verið væri að huga að nýjum ráðherra sem fara ætti meðal annars með auðlindamál.
Visir.is greindi í kjölfarið frá því að þrjár Framsóknarkonur komi sterklega til greina í nýjan ráðherrastól. Þær eru Vigdís Hauksdóttir, Sigrún Magnúsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Silja Dögg er sögð koma til greina vegna reynslu sinnar af störfum innan flokksins og að hún hafi góða reynslu úr atvinnulífinu. Atvinnuuppbygging á Suðurnesjum hefur henni meðal annars verið mjög hugleikin og hefur hún hvatt til álversuppbyggingar á Suðurnesjum í greinum.