Sigurvon byggir nýtt húsnæði
Framkvæmdir við nýtt hús björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði eru nú á lokastigi og verður húsið tekið í notkun innan tíðar. Megináherslur sveitarinnar eru í sjóbjörgun og því var húsinu valin staður á hafnarbakkanum. Þar hefur jafnframt verið komið upp bátaskýli fyrir björgunarbát sveitarinnar.
Sandgerðisbær keypti eldra húsnæði sveitarinnar sem þjóna mun slökkviliði og lögreglu. Þar með verður allur tækjakostur slökkviliðsins kominn undir eitt þak en vegna plássleysis hefur þurft að geyma einn slökkvibíl af þremur á öðrum stað í bænum. Þá er búið að innrétta aðstöðu fyrir lögreglu sem tekin verður í notkun innan tíðar en það hefur lengi verið eitt af baráttumálum Sandgerðinga að fá staðbundna löggæslu í sveitarfélagið.
Kaupverð hússins var 35 milljónir króna eða að auki leggur sveitarfélagið til 18 milljónir í nýbyggingu sveitarinnar.