Sigur fyrir Listasafnið
Sýningin Þríviður í Listasafni Reykjanesbæjar var valin þriðja besta myndlistarsýning ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins. Í fyrsta sæti var valin sýningin Of the North í Listasafni Íslands og sýningarröð Nýlistasafnsins í tengslum við skrásetningu á safneign var í öðru sæti. Þríviður er verk listamannanna Guðjóns Ketilssonar, Hannesar Lárussonar og Helga Hjaltalíns.
Valgerður Guðmundsdóttir, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, segir þessa niðurstöðu menningargagnrýnenda MBL sérlega ánægjulega og í raun mikinn sigur fyrir Listasafn Reykjanesbæjar. „Gagnrýnendur blaðsins, fagaðilarnir, velja þetta sjálfir þannig að manni finnst maður hafa fengið 10 í einkunn á alvöru prófi,“ sagði Valgerður hæstánægð með tíðindin.
Listasafn Reykjanesbæjar fékk á dögunum veglegan styrk frá Menningarráði Suðurnesja sem dugar til að fjármagna næstu þrjár sýningar safnins. Næsta sýning opnar þann 24. janúar en þá verða sýnd verk listmálarans Eyjólfs Einarssonar. Eyjólfur telst til þeirra málara sem tilheyra hinum margnefnda „gamla skóla“.
Hringekjur lífsins er heiti síðustu sýningar hans á Kjarvalsstöðum sem vakti talsverða athygli. Að sögn Valgerðar verður sýningin Listasafninu eins konar framhald á henni í bland við annað.
Á eftir sýningu Eyjólfs verður sett upp sýning á verkum Huldu Vilhjálmsdóttur og því næst fá gestir safnsins að njóta verka Olgu Bergmann, sem á ættir að rekja til bæjarins.
VFmynd/elg - Frá sýningunni Þríviði í Listasafni Reykjanesbæjar.