Sigrún Björk Jakobsdóttir nýr framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia
Sigrún Björk Jakobsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia og hefur hún störf 4. desember næstkomandi. Í starfinu felst yfirumsjón með rekstri og þróun flugvallakerfis utan Keflavíkurflugvallar. Kerfið samanstendur af tólf áætlunarflugvöllum og á fjórða tug annarra flugvalla og lendingarstaða.
Sigrún Björk hefur víðtæka reynslu af rekstri og þekkir vel til ferðaþjónustu og sveitarstjórnarmála. Hún varð fyrst kvenna bæjarstjóri á Akureyri á árunum 2007 til 2009. Sigrún Björk var hótelstjóri á Icelandair Hótel Akureyri 2011 til 2017 og síðan framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu.
Sigrún Björk hefur mikla reynslu af trúnaðarstörfum og stjórnarsetu. Hún hefur meðal annars setið í stjórnum Samtaka ferðaþjónustunnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landsnets, þar sem hún hefur verið stjórnarformaður.
„Innanlandsflugvellir á Íslandi eru gríðarlega mikilvægir innviðir fyrir samfélagið allt. Rekstur þeirra skiptir afskaplega miklu fyrir fólk og ferðaþjónustu,“ segir Sigrún Björk. „Ég þekki vel í gegnum mín fyrri störf í sveitarstjórnarmálum og ferðaþjónustu að mörg og spennandi tækifæri liggja í innanlandsflugvallakerfinu sem hægt er að nýta mun betur. Þetta er krefjandi verkefni sem ég tek að mér og þakka ég það góða traust sem mér er sýnt með ráðningunni.“
„Við hjá Isavia hlökkum til að fá Sigrúnu Björk til starfa,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Þekking hennar og reynsla af rekstri og trúnaðarstörfum hvers konar mun koma félaginu til góða. Sigrún Björk hefur meðal annars unnið að markaðssetningu Akureyrarflugvallar fyrir Markaðsstofu Norðurlands og þekkir hún því vel til verkefna á þessu sviði.“