Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sigríður Þóra vann Söguverðlaunin
Laugardagur 12. júní 2021 kl. 07:02

Sigríður Þóra vann Söguverðlaunin

Sigríður Þóra Gabríelsdóttir, tíu ára úr Njarðvíkurskóla, vann Söguverðlaunin í flokki smásagna á Sögum - verðlaunahátíð barnanna um nýliðna helgi. Það voru RÚV og Menntamálastofnun sem stóðu fyrir viðburðinum. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti verðlaunin í beinni útsendingu á RÚV.

Sigríður Þóra fór á laugardaginn til að taka á móti viðurkenningu ásamt tuttugu öðrum krökkum af landinu sem valdir höfðu verið til viðurkenningar fyrir sögur sínar. Síðar um kvöldið kom svo í ljós að Sigríður Þóra átti aðra af þeim sögum sem sérstaklega voru verðlaunaðar. Saga Sigríðar Þóru heitir „Soffía frænka“ en einnig var sagan „Ævintýravíddin“ verðlaunuð sérstaklega en höfundur hennar er Ásgeir Atli Rúnarsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á hátíðinni er það efni verðlaunað sem þótt hefur skara fram úr í íslenskri barnamenningu á síðasta ári. Sigurvegararnir voru valdir af börnum í gegnum netkosningu.

Hluti af Söguverkefninu eru innsendingar frá krökkum sem fá þá tækifæri til að senda inn sín lög, leikrit, sögur eða handrit. Úr innsendum sögum velur Menntamálastofnun sögur og gefur út í rafbókinni Risa-stórar-smásögur,  Borgarleikhúsið velur verk til að setja á svið sem útskriftarverk Leiklistarskóla Borgarleikhússins, KrakkaRÚV velur handrit að stuttmyndum sem framleiddar eru og fagfólk í tónlist velur lög og texta til að vinna áfram með höfundum. Í ár veitti Árnastofnun auk þess verðlaun fyrir handrit ársins í tilefni af því að 50 ár eru frá heimkomu íslensku handritanna.