Sígarettustubbar og smokkar komu í ruslapokann
Vel heppnaður hreinsunardagur hjá Keflvíkingum.
„Þetta tókst ákaflega vel og margir tóku til hendinni. Við hreinsuðum upp mikið af sígarettufílterum, safafernum og sælgætisbréfum. Svo var einn og einn smokkur sem kom upp í rusapokana,“ sagði Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags en það stóð fyrir umhverfisdegi sama dag og gengið var til alþingiskosninga.
Stjórnarmenn deilda félagsins komu saman og hreinsuðu upp rusl í kringum íþróttasvæði sín. Dagurinn tókst vel og nokkuð af rusli féll til. Að endingu var efnt til grillveislu þar sem formaður félagsins grillaði hamborgara fyrir það duglega fólk sem tók þátt í verkefninu.
„Það eru markmið félagsins að vel sé gengið um keppnissvæði og nærumhverfi félagsins, þau séu snyrtileg og öllum til sóma. Félagið vill sýna gott fordæmi með því að efna til umhverfisdags innan félagsins þar sem stjórnarmönnum og öðrum félagsmönnum gefst kostur á að koma og leggja sitt af mörkum,“ sagði Einar.
Umhverfisdagur Keflavíkur var í samstarfi við Víkurfréttir, Samkaup og umhverfissvið Reykjanesbæ lagði til ruslapoka og fargaði því rusli sem safnast eftir þessa tiltekt.