Sífellt fleiri leita eftir aðstoð í Reykjanesbæ
„Maður var farinn að vona að þetta myndi eitthvað breytast, en það fer bara versnandi,“ segir Anna Jónsdóttir, verkefnisstjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ í samtali við Morgunblaðið sl. laugardag. Í úthlutun nú á fimmtudag þáðu 242 fjölskyldur matarpoka. Að jólaúthlutun fráskilinni er þetta stærsta úthlutunin sem þar hefur farið fram.
Ekki bundið við ákveðna hópa
Anna segir þá sem leita aðstoðar vera á öllum aldri, allt frá ungu fjölskyldufólki og upp í fólk sem komið er yfir áttrætt. „Þetta fólk er ekki bara fátækt að þessu leyti, heldur líka félagslega. Það er á allan hátt fátækt og það finnst manni hræðilegast af öllu,“ segir Anna. Sumir séu jafnvel í þeirri stöðu að fara aldrei út fyrir hússins dyr nema í þau skipti sem þeir koma til Fjölskylduhjálparinnar, þar sem viðkomandi séu einfaldlega niðurbrotnir vegna þeirrar stöðu sem þeir eru í.
Anna segir starfsemina hafa notið góðs af gjöfum og nefnir sérstaklega Sigurjónsbakarí, Nýja bakaríið, Nettó og Kaffitár. Hún hefur hins vegar leitað eftir því, fyrir hönd Fjölskylduhjálparinnar, að fyrirtæki og félagasamtök sem séu aflögufær leggi starfseminni til matvæli, fatnað og annað sem gagnast geti þeim sem lítið hafa milli handa, segir í frétt Morgunblaðsins.