Sífellt fleiri kennarar yfirgefa skólana
- Ályktun frá skólastjórnendum í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ
Skólastjórnendur grunnskóla í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ lýsa þungum áhyggjum af því að ekki skuli enn vera búið að ganga frá kjarasamningi við grunnskólakennara. Þeir sendu frá sér sameiginlega ályktun í dag þar sem fram kemur að verði ekki gengið frá kjarasamningnum fljótlega muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir skólastarf. Þá kemur fram í ályktuninni að stöðugt fleiri kennarar leiti í önnur störf og nú er staðan sú að um helmingur menntaðra kennara starfar ekki við kennslu.
Ályktunina á lesa hér fyrir neðan:
Við skólastjórnendur eftirtalinna skóla höfum þungar áhyggjur af því að enn skuli ekki vera búið að ganga frá kjarasamningi við grunnskólakennara. Verði það ekki gert fljótlega mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir skólastarf.
Sá stóri vandi sem steðjar að skólastarfinu mun vaxa og sofandaháttur ráðamanna ber ekki vott um mikinn skilning eða vilja til að efla skólastarf, ekki einu sinni til að halda í horfinu.
Fyrirséð er að stórir árgangar starfandi kennara munu láta af störfum á næstu árum vegna aldurs. Á sama tíma er nýliðun, útskrift nýrra kennara, í lágmarki sem má rekja til þess að launakjör kennara eftir 5 ára háskólanám eru ekki líkleg til þess að ungt áhugasamt fólk sjái framtíð í því að velja kennaranám. Þetta eitt og sér mun gera það stöðugt erfiðara að fá kennara til starfa á næstu árum og áratugum.
Um helmingur menntaðra kennara starfar ekki við kennslu og nú verður það stöðugt algengara að starfandi kennarar leiti í önnur störf. Þegar þrengdi að á vinnumarkaði var auðveldara að fá kennara til starfa en nú þegar eftirspurn eykst á hinum almenna vinnumarkaði fjölgar þeim kennurum sem yfirgefa skólana og fara í önnur störf, enda hækka laun þeirra í flestum tilvikum verulega við að breyta um starfsvettvang. Það auðveldar ekki framkvæmd menntastefnu að kennslan skuli metin á þann hátt að hún sé afgangsstærð og að það ráðist af ástandi á vinnumarkaði hvort hægt sé að halda kennurum í kennslu eða ekki.
Við skólastjórnendur finnum verulega fyrir þessum vanda þegar þarf að ráða í störf sem losna.
Núverandi vandi verður ekki leystur með tilfærslum á vinnutíma eða vinnutilhögun. Til að leysa þann vanda sem steðjar að skólastarfinu þurfa kennaralaun að hækka umtalsvert svo að kennarastarfið verði launalega samkeppnishæft og spornað verði gegn verulegum kennaraskorti.
Þetta er ekki sérmál kennara heldur brýnt hagsmunamal þjóðarinnar allrar og ekki síst atvinnulífsins í landinu.
Virðingarfyllst,
Skólastjórnendur í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ
Jóhann Geirdal Gíslason, skólastjóri Gerðaskóla
Ásgerður Þorgeirsdóttir, skólastjóri Njarðvíkurskóla
Eðvarð Þór Eðvarðsson, skólastjóri Holtaskóla
Hólmríður Árnadóttir, skólastjóri Grunnskólans í Sandgerði
Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla
Bryndís Guðmundsdóttir, skólastjóri Myllubakkaskóla
Haraldur Axel Einarsson, skólastjóri Heiðarskóla
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, skólastjóri Háaleitisskóla