Sífellt er verið að endurmeta kennsluaðferðir
Holtaskóli náði þeim eftirtektaverða árangri síðastliðið haust að 4. bekkingar skólans náðu bestum árangri allra á landinu í stærðfræði á samræmdum prófum. Í þeim prófum voru nemendur Holtaskóla einnig yfir landsmeðaltali í 4 greinum af 7 sem er besti árangur skólans til þessa. Miklar umbreytingar hafa átt sér stað undanfarin ár í skólastarfinu í Holtaskóla og er árangurinn eftir því. Þær Bryndís Gísladóttir og Lóa Rut Reynisdóttir kenna nemendum 4. bekkjar en þær settust niður með blaðamanni Víkurfrétta í vikunni og fræddu hann um starfið sem á sér stað í skólanum.
Þær stöllur Bryndís og Lóa Rut hafa báðar verið að kenna um nokkurt skeið. Lóa Rut hefur verið með nemendurna sem nú eru í 4. bekk frá því að þau hófu skólagöngu sína en þetta er annar veturinn hjá Bryndísi í Holtaskóla en hún kenndi áður í Heiðarskóla.
„Hér hefur átt sér stað mikil vinna. Við á yngsta stigi höfum unnið í teymum þar sem samstarf milli bekkja og árganga er mikið,“ segir Lóa. Gert er ráð fyrir því að börnin nái 80% árangri á könnunarprófum sem tekin eru reglulega en ef nemendur eru undir þeim viðmiðum er þeim veitt ítarlegri aðstoð til að ná fyrirliggjandi markmiðum. Sú aðstoð felst í því að nemendur fá ítarefni bæði í skólanum og heim, auk þess sem sérstaklega er hlúð að þeim nemendum sem þurfa aukna aðstoð. Grunnskilningurinn er því ávallt hafður að leiðarljósi og ekki vaðið áfram. Þær Bryndís og Lóa segja markmiðin hafa verið að ná 80% og það tókst síðasta haust þegar að 4. bekkur í Holtaskóla náði hæstu einkunn á landinu í samræmdum prófum í stærðfræði, eða 8,1 sem er töluvert yfir landsmeðaltali sem var 6,5.
„Það hefur verið skýr stefna skólans síðustu ár að bæta námsárangur. Við fórum sérstaklega að huga að stærðfræðinni fyrir nokkrum árum og nú er erum við að uppskera árangurinn af því. Við erum að vinna sömu vinnu með íslenskuna og vonumst til þess að það skili sama árangri áður en langt um líður en Holtaskóli náði 10. besta árangri 4. bekkinga í íslensku á síðastliðnum samræmdu prófum. „Það er von okkar að þetta skili sér á sama hátt í íslenskunni“ segir Bryndís.
Sífellt er verið að endurmeta kennsluaðferðir og lögð áhersla á að kenna bara það sem skiptir máli og það sem virkar. Aðferðum sem ekki skila árangri er ýtt til hliðar. „Það er sífelld þróun í skólastarfi og við verðum að vera á tánum gagnvart því sem virkar og því sem ekki er að skila sér eins vel.“
Gott samstarf við foreldra
„Það hefur verið afar gott samstarf við foreldra og hefur það skilað sér í auknum árangri,“ en foreldrar sem eiga börn í 1. bekk fara á lestrarþjálfunarnámskeið hjá Guðbjörgu Rut Þórisdóttur lestrarfræðingi og þar er grunnurinn lagður enda er lestur undirstaða alls náms. „Þar kemur greinilega í ljós hve hlutur foreldranna er mikilvægur í starfinu. Holtaskóli er skólasamfélag þar sem gott samstarf er fyrir öllu,“ en þær eru sammála um að þessi árangur sem náðst hafi sé að miklu leyti að þakka góðu samstarfi foreldra, kennara og nemenda.
Börnin hefja undirbúning fyrir samræmdu prófin strax í 3. bekk en þau eru ekki vön því að taka svo löng próf eins og gefur að skilja. Það þarf því að kenna börnunum að takast á við svona veigamikið verkefni. „Undirbúningur var vel skipulagður og þegar að börnin komu svo loks í prófin þá var þetta ekkert mál. Við vorum búin að leggja sérstaka áherslu á skipulögð og góð vinnubrögð og að hugarfarið skipti miklu máli. Við létum þau alltaf vita að við hefðum fulla trú á þeim og að þau væru algjörlega tilbúin í þetta verkefni. Þegar svo í prófin var komið þá höfðu börnin meiri áhyggjur af því hvað þau ættu að koma með í nesti en af prófinu sjálfu. Um leið og maður sá það að krakkarnir voru meira að spá í því hvort það mætti koma með Subway eða sætindi þá varð okkur ljóst að við þyrftum ekki að hafa miklar áhyggjur af þeim,“ segja þær stöllur með bros á vör.
„Skólarnir á Suðurnesjum eru nú í sókn og það er gaman að taka þátt í þeirri uppbyggingu,“ segja þær Bryndís og Lóa að lokum.